Ítalska stjarnan ber mikla virðingu fyrir Íslandi

Montella á fundinum í dag.
Montella á fundinum í dag. mbl.is/Jóhann Ingi

Vincenzo Montella ítalskur þjálfari tyrkneska karlalandsliðsins í fótbolta er hrifinn af íslenska liðinu, en þau mætast í Izmir í Tyrklandi í Þjóðadeildinni annað kvöld.

„Ísland er með mjög samheldinn hóp. Íslenska liðið er mjög skipulagt, bæði í varnar- og sóknarleik. Ég ber mikla virðingu fyrir íslenska liðinu,“ sagði Montella á blaðamannafundi tyrkneska liðsins á Gürsel Aksel-vellinum í Izmir í dag.

Þá sagði hann Åge Hareide þjálfara íslenska liðsins vera með svipaða sýn á fótbolta og hann sjálfur og margir aðrir ítalskir þjálfarar.

„Þjálfari Íslands er með skemmtilega sýn á fótbolta og ekki ósvipaða og við ítölsku þjálfararnir. Við vitum að Ísland vann England á dögunum og við vitum að íslenska liðið er sterkt,“ sagði Montella.

Montella, sem er fimmtugur, lék sjálfur yfir 300 leiki í ítölsku A-deildinni og skoraði tæplega 200 mörk. Þá lék hann einnig með ítalska landsliðinu á sínum tíma, alls 20 leiki þar sem hann skoraði fimm mörk.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert