Völsungur og Þróttur Vogum gerðu jafntefli í dramatískum leik í 2. deild karla í knattspyrnu á Húsavík í dag.
Völsungur er í bestu stöðunni fyrir lokaumferðina næstu helgi en liðið er með 40 stig í öðru sæti. Þróttur Vogum er í þriðja sæti með 39 stig líkt og Víkingur Ólafsvík sem er í fjórða sæti.
Liðin þrjú keppast um að fylgja Selfossi upp í 1. deildina. Selfoss vann KFG 3:1 á útivelli og jók forskot sitt í tíu stig í leiðinni.
Völsungur heimsækir KFA í lokaumferðinni en Þróttur fær Hauka í heimsókn. Þá fær Víkingur Kormák/Hvöt í heimsókn.
Þróttarar eru með bestu markatöluna fyrir síðustu umferðina.
Þróttarar komust í 2:0 í fyrri hálfleik þökk sé mörkum frá Jóhannesi Karli Bárðarsyni og Guðna Sigþórssyni.
Arnar Pálmi Kristjánsson, fyrirliði Völsungs, minnkaði muninn á 79. mínútu með hörkuskoti úr aukaspyrnu.
Juan Guardia jafnaði síðan metin á 95. mínútu leiksins með skallamarki.
Víkingur Ólafsvík gerði þá jafntefli við Ægi í Þorlákshöfn, 2:2. Luis Romero og Luis Diez skoruðu fyrir Ólafsvíkinga en Stefan Dabetic og Bjarki Rúnar Jónínuson fyrir Ægi.
KF er í 11. og næstneðsta sæti deildarinnar með 18 stig en Kormákur/Hvöt er í 10. og þriðja neðsta með 19 stig. KFG er síðan í 9. sæti með 20 stig.
Eitt af þessum liðum fylgir Reyni úr Sandgerði niður um deild en þau töpuðu öll í dag.