Þórsarar frá Akureyri tryggðu sér áframhaldandi sæti í 1. deild karla í knattspyrnu í dag þegar 21. og næstsíðasta umferðin var leikin en Grótta féll niður í 2. deild.
Þór vann Dalvík/Reyni, 2:0, á Akureyri þar sem Aron Einar Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði, skoraði fyrra markið úr vítaspyrnu á 27. mínútu og Rafael Victor tryggði sigurinn með marki undir lokin.
Grótta varð að vinna ÍR í Breiðholti og treysta á að Þór myndi ekki vinna sinn leik til að knýja fram hreinan úrslitaleik á heimavelli gegn Þórsurum í lokaumferðinni um næstu helgi.
Það gekk ekki heldur upp því Grótta tapaði leiknum gegn ÍR 2:1. Renato Punyed og Bragi Karl Bjarkason komu ÍR í 2:0 áður en Patrik Orri Pétursson minnkaði muninn fyrir Gróttu.
Þór er því með 23 stig í 10. sæti deildarinnar en Grótta er fallin með 16 stig og Dalvík/Reynir með 13.
Dragan Kristinn Stojanovic, þjálfari Dalvíkur/Reynis, fékk rauða spjaldið í uppbótartíma leiksins og verður því í banni í lokaumferðinni um næstu helgi.
Þá vann Leiknir sigur á Þrótti, 3:2, í Reykjavíkurslag í Laugardalnum og liðin eru þar með jöfn í sjöunda og áttunda sætinu með 27 stig en bæði sigldu lygnan sjó fyrir leikinn í dag.
Leiknir komst í 3:0 um miðan fyrri hálfleik þegar Omar Sowe skoraði tvö mörk og Róbert Hauksson eitt á sex mínútna kafla en á lokamínútum leiksins skoruðu Birkir Björnsson og Kári Kristjánsson fyrir Þrótt.