Vonandi náum við að slökkva í þeim aftur

Jóhann Berg Guðmundsson á blaðamannafundinum í dag.
Jóhann Berg Guðmundsson á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Jóhann Ingi

Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsfyrirliði sat fyrir svörum blaðamanna á Gürsel Aksel-vellinum í Izmir í Tyrklandi í dag.

Ísland mætir Tyrklandi í Þjóðadeildinni í fótbolta annað kvöld og virkaði grasið á vellinum ekki sérlega gott þegar íslenska liðið æfði í dag.

„Völlurinn er sléttur og við erum vanir því að spila í alls konar aðstæðum. Boltinn gekk vel á milli manna þótt völlurinn sé aðeins harður. Við getum ekki kvartað þegar við erum með Laugardalsvöll heima,“ sagði Jóhann.

Hann hefur nokkrum sinnum leikið við Tyrkland á útivelli með landsliðinu og var 3:0-sigur árið 2017 sérstaklega minnistæður, en Jóhann skoraði einmitt í leiknum. Sigurinn fór langt með að tryggja Íslandi sæti á HM 2018.

„Leikurinn sem við unnum 3:0 og tryggðum okkur inn á HM stuttu síðar var eftirminnilegur. Þá voru svakaleg læti í þeim en við náðum að slökkva vel í þeim og vonandi náum við að gera það aftur á morgun,“ sagði Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert