Guðmundur í bann en Böðvar slapp

Guðmundur Kristjánsson í leik með Stjörnunni gegn HK.
Guðmundur Kristjánsson í leik með Stjörnunni gegn HK. mbl.is/Eyþór Árnason

Guðmundur Kristjánsson, leikmaður Stjörnunnar, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann fyrir að hafa veitt Böðvari Böðvarssyni, leikmanni FH, kjaftshögg í leik liðanna í Bestu deildinni í knattspyrnu í byrjun mánaðarins.

Böðvar hafði skömmu áður veitt Guðmundi olnbogaskot en var ekki veitt refsing fyrir það. Hvorugum leikmanni var refsað á meðan leiknum stóð og ekki minnst á atvikið í skýrslu dómarans Péturs Guðmundssonar eftir hann. Hefur Pétur því að öllum líkindum ekki séð atvikið.

Því tók málskotsnefnd KSÍ málið fyrir og vísaði því til aga- og úrskurðarnefndar sambandsins með hliðsjón af myndbandsupptökum frá Stöð 2 Sport, þar sem sést vel hvað átti sér stað.

Í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar segir að Guðmundur hafi sýnt af sér alvarlega grófan og hættulegan leik með því að slæma hönd sinni í höfuð Böðvars.

Mat nefndarinnar er þá að olnbogaskot Böðvars uppfylli ekki áskilnað um alvarlegt agabrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert