Hættur að þjálfa Grindavík

Anton Ingi Rúnarsson hefur látið af störfum sem þjálfari kvennaliðs …
Anton Ingi Rúnarsson hefur látið af störfum sem þjálfari kvennaliðs Grindavíkur. Ljósmynd/Grindavík

Anton Ingi Rúnarsson hefur ákveðið að segja starfi sínu sem þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í knattspyrnu lausu.

Grindavík hélt sæti sínu í 1. deild á nýafstöðnu tímabili og mun að öllum líkindum sameinast öðru liði fyrir það næsta. Samkvæmt heimildum mbl.is er þar um að ræða Njarðvík.

Anton Ingi hefur verið hluti af þjálfarateymi meistaraflokks kvenna undanfarin fjögur ár og var aðalþjálfari síðastliðin tvö tímabil.

„Þetta tímabil hefur verið okkur sérstaklega krefjandi innan vallar sem utan og hefur Anton Ingi tekið að sér mörg auka verk fyrir félagið í þessum aðstæðum sem ekki voru í hans verkahring og fyrir það erum við honum einstaklega þakklát.

Við viljum þakka Antoni Inga fyrir gott samstarf og vel unnin störf fyrir félagið um leið og við óskum honum góðs gengis í framtíðinni,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild Grindavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert