Haraldur V. Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, segir enn unnið hörðum höndum að því að fá lausn í mál karlaliðsins þar sem ekki er víst hvar það getur spilað heimaleiki sína í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu í haust og vetur.
„Það er ekkert að frétta enn þá. Það er bara mikil vinna í gangi. Þetta er flókið mál en það er ekkert að frétta, við getum ekki tjáð okkur enn þá,“ sagði Haraldur í samtali við mbl.is.
RÚV greindi frá því á mánudag að Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hafi fengið frest til miðnættis á mánudag, hugsanlega daginn eftir, til þess að tilkynna sambandinu hvar þrír heimaleikir Víkings í Sambandsdeildinni yrðu leiknir.
Víkingar hafa hins vegar fengið framlengdan frest.
„Það er kominn lengri frestur og verið að rýna í ákveðna þætti. Það er kominn aðeins lengri frestur.
Hvort að þetta verði í dag eða á morgun þori ég ekki alveg að fara með. Það er að gríðarlega mörgu að hyggja, það er bara málið,” sagði Haraldur að lokum.
Víkingsvöllur stenst ekki kröfur UEFA um heimavelli í Evrópukeppnum og á Kópavogsvelli, sem hefur verið nefndur sem möguleiki, þarf að bæta flóðlýsingu til þess að standast þær kröfur.
Víkingur hefur þá fengið vilyrði fyrir því að spila á Þórsvelli, þjóðarleikvangi Færeyja, ef ekki næst að finna völl á Íslandi fyrir heimaleikina.