FH og Víkingur áttust við í efri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld og lauk leiknum með sigri Víkinga 3:0.
Leikurinn fór fjöruglega af stað því Víkingskonur skoruðu fyrsta mark leiksins á annari mínútu þegar Linda Líf Bouma slapp ein í gegnum vörn FH, lék á Aldísi Guðlaugsdóttur í marki FH, og lagði boltann í netið. Staðan 1:0 fyrir Víking.
FH-konur sóttu í sig veðrið í framhaldinu og reyndu að koma sér inn í leikinn. Á 21. mínútu leiksins átti Berglind Freyja Hlynsdóttir gott skot í þverslá.
Víkingskonur tvöfölduðu forystuna á 35 mínútu þegar Shaina Ashouri náði frákasti og skoraði eftir að Aldís hafði varið skot Bergdísar Sveinsdóttur.
Freyja Stefánsdóttir var nálægt því að skora þriðja mark Víkingskvenna þegar hún komst ein gegn Aldísi í marki FH en Aldís varði skot hennar.
Staðan í hálfleik 2:0 fyrir Víkinga.
Eftir tæplega 7 mínútur af seinni hálfleik voru Víkingskonur búnar að skora þriðja markið sitt. Þar var aftur að verki Shaina Ashouri. Víkingskonur tóku innkast sem barst inn í teig. Þar var Emma Steinsen Jónsdóttir sem gaf boltann til Shaina. Shaina afgreiddi boltann síðan vel í mark FH kvenna og staðan orðin 3:0 fyrir Víkinga.
Á 63. mínútu leiksins reyndu FH-konur að minnka muninn þegar Elísa Lana Sigurjónsdóttir átti hörkskot sem fór rétt framhjá marki Víkinga. Hildur Katrín Snorradóttir var síðan á ferðinni 7 mínútum síðar þegar hún komst í frábært færi en Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir markvörður Víkinga varði vel.
Eftir þetta kom kafli þar sem Víkingskonur áttu sviðið. Bergdís Sveinsdóttir átti hvert skotið á fætur öðru sem Aldís ýmist varði eða þá að skotið leitaði framhjá markrammanum.
Má segja að hér hafi verið dæmigerður leikur þar sem annað liðið hafði í raun ekkert að vinna og engu að tapa nema bara leiknum sjálfum.
Svo fór að leiknum lauk með sigri Víkingskvenna 3:0. Víkingar halda því í vonina um að ná 3. sætinu í Bestu deild kvenna í sumar.