Vil að sonurinn horfi á mig sem eina af þeim bestu

Ómar Páll Sigurbjartsson, eldri sonur þeirra Brynjar Atli Ómarsson og …
Ómar Páll Sigurbjartsson, eldri sonur þeirra Brynjar Atli Ómarsson og Dagný Brynjarsdóttir. Ljósmynd/Dagný Brynjarsdóttir

Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og fyrirliði West Ham United, er farin á fullt með liði sínu eftir að hafa eignast annað barn sitt í febrúar síðastliðnum.

Rúm vika er í að nýtt tímabil á Englandi hefjist. Auk þess að setja stefnuna á að vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu hjá West Ham beinir Dagný sjónum sínum að því að snúa aftur í íslenska landsliðið.

„Mig langar að komast aftur í landsliðið. Ég hef nú ekkert heyrt í Steina [Þorsteini Halldórssyni landsliðsþjálfara] síðan yngri sonur minn var fjögurra vikna en mig langar að komast aftur í það.

Ég er kannski bara þannig einstaklingur að ég sé mig ekki vera að spila fótbolta á hæsta stigi en ekki spila með landsliðinu. Það er kannski hluti af þessu að eldri strákurinn minn er orðinn sex ára og hann veit að bestu leikmennirnir eru í íslenska landsliðinu.

Maður þarf að leggja mikið á sig til þess að vera í því. Mér finnst ég einhvern veginn ekki geta verið ekki í því. Auðvitað vil ég að hann horfi á mig sem einn af bestu leikmönnunum,“ sagði hún í samtali við mbl.is

Væri erfitt að útskýra

Dagný, sem er 33 ára, á 113 A-landsleiki að baki og hefur skorað í þeim 38 mörk.

„Það væri erfitt fyrir mig að útskýra fyrir honum ef ég væri að spila fyrir West Ham en myndi svo ekki gefa kost á mér fyrir landsliðið.

Að spila fyrir íslenska landsliðið felur í sér mesta stoltið og er ein helsta viðurkenningin fyrir Íslending. Ég held að ég muni alltaf gefa kost á mér í íslenska landsliðið á meðan ég spila fótbolta,“ bætti hún við.

Ítarlegt viðtal við Dagnýju birtist í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert