Arnar ekki með gegn Óskari

Arnar Gunnlaugsson og Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Arnar Gunnlaugsson og Óskar Hrafn Þorvaldsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslandsmeistara Víkings úr Reykjavík, verður ekki á hliðarlínunni þegar liðið heimsækir KR, sem Óskar Hrafn Þorvaldsson er tekinn við, á Meistaravöllum klukkan 17 í dag. 

Arnar fékk þriggja leikja bann fyrir hegðun sína eftir jöfnunarmark Vestra gegn Víkingi í Bestu deildinni í síðasta mánuði. 

Síðan þá hefur Arnar ekki verið á hliðarlínunni gegn ÍA og Val og nú loks KR. 

Óskar Hrafn tók alfarið við KR-liðinu fyrir rúmum mánuði síðan. Hann tók við Haugesund í Noregi í fyrra eftir að hafa komið Breiðabliki í Sambandsdeildina en entist stutt í Noregi, að eigin ósk. 

Arnar og Óskar lentu oft í deilum árin 2021 til 2023 en þeir stýrðu tveimur bestu félagsliðum Íslands. 

Með sigri komast Víkingar á toppinn fyrir lokaumferðina áður en deildunum verður skipt. Mikið er undir hjá KR-ingum en með sigri komast þeir fimm stigum frá fallsæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert