Bríet Jóhannsdóttir átti fínan leik í liði Þórs/KA í dag þegar Valur kom í heimsókn á KA-völlinn. Valskonur unnu sanngjarnan 1:0-sigur.
Bríet spilaði sem hægri bakvörður og hafði í nógu að snúast en hún er fyrst og fremst þekkt fyrir að spila frammi og skora mörk. Bríet kom í stutt spjall eftir leik.
„Þetta var mjög erfitt í dag. Við náðun svo einhverjum spilköflum inn á milli en svona fór þetta bara. Valur skoraði þetta glæsimark en það var smá heppni í því hvernig boltinn barst til Rakelar sem skoraði. Þetta var samt vel gert.“
Þú fékkst dæmt á þig víti undir lok leiksins. Hvað viltu segja um það?
„Mér fannst þetta alls ekki vera víti. Dómarinn sagði að ég hafði farið beint í fótinn á henni. Hún flæktist bara í reimunum hjá mér og bara datt. Mér fannst hún bara láta sig detta. Dómarinn tekur sínar ákvarðanir og maður verður að virða þær.“
Það er nú stundum sagt að boltinn ljúgi aldrei og Valur klúðraði þessu víti með stæl.
„Ég var heppin að Jasmín skaut framhjá markinu út vítinu. Það hefði verið ömurlegt ef þetta hefði kostað mark.“
Það hefði verið virkilega svekkjandi fyrir þig eftir að hafa spilað vel allan leikinn.
Bríet átti nú hálf erfitt með því að taka þessu hrósi og sagði bara „já“ á sinn hæverska hátt.
Þjálfarinn ykkar segir að lokaleikirnir í mótinu verði nýttir til að byggja undir næsta tímabil. Þið eruð með fínasta hóp og það vantar ekki mikið svo að þið getið farið að berjast un toppsætið við Breiðablik og Val.
„Við þurftum að gera fjórar breytingar á byrjunarliðinu fyrir þennan leik og vorum með mjög unga leikmenn á bekknum. Mér fannst við gera ágætlega með sextán uppalda leikmenn í liðinu og meðalaldur undir tvítugt. Það voru fjórar fæddar 2006 í byrjunarliðinu. Mér finnst bara næsta skref að fara enn hærra og berjast við toppliðin. Við viljum vera þar á næsta ári.“
Hvar ætlar þú að vera í því liði?
„Ætli maður festist ekki bara í vörninni eftir þetta. Mig langar að vera einhvers staðar framarlega á vellinum. Ef ég verð bakvörður í byrjunarliðinu þá yrði það alveg jafn gaman“ sagði Bríet að lokum.