Jasmín var of frek

Anna Rakel Pétursdóttir á leiðinni upp vinstri kantinn í leiknum …
Anna Rakel Pétursdóttir á leiðinni upp vinstri kantinn í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Anna Rakel Pétursdóttir þurfti að missa af löngum og ströngum fögnuði Valskvenna í klefanum eftir 1:0 sigur á Þór/KA í Bestu deild kvenna á Akureyri í kvöld.

Hún skoraði eina mark leiksins og var það af dýrari gerðinni. Vitaskuld var þá tilvalið að fá Önnu Rakel í viðtal eftir leik en hún er alin upp á KA-vellinum þar sem leikurinn fór fram.

Anna Rakel var fyrst spurð út í markið og græðgina sem fylgdi í kjölfarið en hún átti fjölmörg skot að marki þrátt fyrir að spila sem vinstri bakvörður.

„Nú hafa flóðgáttirnar opnast. Ég skoraði eitt mark úti í Evrópukeppninni og svo annað núna. Það var líka gaman að skora hér á KA-vellinum og spila hér. Þetta var skemmtilegt en vissulega blendnar tilfinningar.“

Þú varst nú þekkt fyrir mikla spyrnugetu í yngri flokkunum og þekkt fyrir að skora með þrumuskotum. Þetta var draumamark hjá þér í dag. Einn viðstöðulaus á lofti beint í vinkilinn.

„Þetta er ekki flókið“ sagði Anna Rakel sposk.

En að leiknum. Þið voruð með yfirhöndina nánast allan leiktímann en það vantaði bara að bæta við marki eða mörkum. Þið klúðruðuð m.a. víti í lokin.

„Þetta var hörkuleikur og mjög sterkt hjá okkur að ná öllum stigunum. Við tökum þetta með okkur inn í síðustu leikina. Við þurfum að vinna þá alla og ætlum að gera það.“

Ég verð að lokum að spyrja þig um vítið sem þið fenguð í lok venjulegs leiktíma. Af hverju fékkst þú ekki að taka það? Búin að skora og vera sjóðandi heit í leiknum.

„Jasmín var of frek“ sagði Anna Rakel skellihlæjandi. „Við vorum búin að segja það að 1:0 væri það sem skipti máli og að bara vinna þennan leik."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert