Ekki við hæfi að skrifa það

Alex Freyr Hilmarsson fagnar með Vicente Valor í leikslok.
Alex Freyr Hilmarsson fagnar með Vicente Valor í leikslok. mbl.is/Ólafur Árdal

„Þetta er æðislegt,“ sagði Alex Freyr Hilmarsson fyrirliði ÍBV í samtali við mbl.is eftir að liðið tryggði sér sæti í Bestu deildinni í fótbolta í dag. ÍBV gerði jafntefli við Leikni, 1:1, en hélt efsta sæti 1. deildarinnar þar sem Fjölnir tapaði fyrir Keflavík.

„Þetta var virkilega kærkomið. Við náðum markmiðunum okkar þótt við gerðum þetta fullerfitt fyrir okkur. Við heyrðum það í hálfleik og svo í stúkunni í seinni hálfleik hvernig staðan var í Keflavík. Þetta var erfiður leikur og við vorum undir en við tjölduðum inn í vítateignum þeirra á meðan þeir komust einu sinni í okkar teig. Við þurfum að laga það hjá okkur,“ sagði hann.

ÍBV féll úr Bestu deildinni á síðasta ári og Alex sagði liðið geta tekið margt með sér úr tímabilinu og inn í það næsta.

„Það gekk ágætlega. Það er búið að vera bras á mér vegna meiðsla en við sem lið höfum bætt okkur í mörgu sem við tökum með sem lið upp í efstu deild. Það er enn svolítið í að við getum gert okkur gildandi þar.“

Hann var að klára sitt þriðja tímabil með ÍBV og búinn að tengjast Vestmannaeyjum sterkum böndum. Þar í bæ kann fólk að fagna vel.

„Það er bara rosalega gaman í Eyjum og vissulega enn skemmtilegra núna. Það er ekki við hæfi að skrifa það hvernig við fögnum í kvöld,“ sagði Alex, í góðu skapi, að lokum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert