Eyjamenn upp í Bestu deildina

Eyjamenn fagna áfanganum í dag.
Eyjamenn fagna áfanganum í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

ÍBV er komið upp í Bestu deild karla í fótbolta eftir eins árs fjarveru þrátt fyrir 1:1 jafntefli gegn Leikni úr Reykjavík í lokaumferð 1. deildarinnar á Leiknisvellinum í dag. Þar sem Fjölnir tapaði gegn Keflavík hélt ÍBV toppsætinu þrátt fyrir úrslitin í Breiðholti. 

ÍBV fékk 39 stig en Keflavík með 38, Fjölnir með 37, Afturelding með 36 og ÍR með 35 stig fara í umspil um hvert þeirra fylgir Eyjamönnum upp. Leiknir endar í áttunda sæti með 28 stig.

Eyjamenn voru mun líklegri til að skora framan af leik og Vicente Valor, Tómas Bent Magnússon, Oliver Heiðarsson og Guðjón Ernir Hrafnkelsson fengu allir fín færi til að skora en Bjarki Arnaldarson stóð vaktina í marki Leiknis mjög vel.

mbl.is/Ólafur Árdal

Valor fékk besta færi Eyjamanna þegar hann slapp einn gegn Bjarka en lagði boltann yfir markið af stuttu færi.

Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn komst Leiknir betur inn í leikinn og áttu nokkrar hættulegar sóknir. Eftir eina slíka kom fyrsta mark leiksins á 36. mínútu.

Róbert Hauksson fékk þá boltann um 25 metrum frá marki, fór aðeins nær og lagði boltann glæsilega í hornið fjær með hnitmiðuðu skoti.

Jón Ingason komst nálægt því að jafna í uppbótartíma fyrri hálfleiks er hann átti fallegt skot úr aukaspyrnu og boltinn stefndi í vinkilinn en Bjarki varð glæsilega. Var staðan í hálfleik því 1:0, Leikni í vil.

Oliver Heiðarsson úr ÍBV sækir að Dusan Brkovic hjá Leikni …
Oliver Heiðarsson úr ÍBV sækir að Dusan Brkovic hjá Leikni í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Eyjamenn voru miklu meira með boltann í seinni hálfleik og héldu áfram að skapa sér færi. Guðjón Ernir Hrafnkelsson fékk dauðafæri til að jafna á 55. mínútu en hann setti boltann yfir þegar hann stóð næstum því inni í markinu sjálfur. Stuttu á undan hafði Daði Bærings Halldórsson bjargað á línu eftir skalla frá Tómasi Bent.

Sverrir Páll Hjaltested fékk kjörið færi til að jafna á 55. mínútu en Bjarki varði enn og aftur. Oliver setti síðan boltann framhjá úr úrvalsfæri á 63. mínútu og var staðan á einhvern ótrúlegan hátt enn 1:0 þegar 10 mínútur voru eftir.  

Sókn Eyjamanna róaðist aðeins á lokakaflanum, enda ljóst að liðið væri á leiðinni upp um deild, og stefndi allt í sigur Leiknis.

Eyjamenn gera sig klára í leikinn í dag.
Eyjamenn gera sig klára í leikinn í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Það breyttist hins vegar í uppbótartíma þegar ÍBV fékk víti. Vicente Valor tók vítið, skoraði af öryggi og tryggði ÍBV eitt stig. Fögnuðu Eyjamenn vel og innilega í leikslok, enda sætið í Bestu deildinni tryggt. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Leiknir R. 1:1 ÍBV opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka