Gríðarleg spenna fyrir lokaumferðina

Oliver Heiðarsson og félagar í ÍBV stefna upp í Bestu …
Oliver Heiðarsson og félagar í ÍBV stefna upp í Bestu deildina. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Lokaumferð 1. deildar karla í knattspyrnu verður spiluð í dag og er spennan mikil á toppi deildarinnar.

Fyrir umferðina situr ÍBV á toppi deildarinnar með 38 stig, stigi á undan Fjölni og þremur stigum á undan Keflavík og ÍR.

ÍBV mætir Leikni Reykjavík í Breiðholtinu í dag og mun með sigri þar tryggja sæti sitt í Bestu deildinni.

Keflavík og Fjölnir mætast í Keflavík og ljóst er að Fjölnir þarf á sigri að halda þar og vona að ÍBV misstigi sig gegn Leikni R.

Umspilssæti í boði

Það kemst aðeins eitt lið beint upp í Bestu deildina, liðin sem lenda í sætum tvö til fimm fara í umspil um að fylgja efsta liðinu upp um deild.

Eins og staðan er núna er Fjölnir öruggt með sæti í umspilinu. Keflavík situr í þriðja sæti með 35 stig, ÍR er í því fjórða einnig með 35 stig. Afturelding er í fimmta sæti með 33 stig og Njarðvík er í sjötta sæti með 32 stig.

Njarðvík mætir Grindavík á útivelli og þarf á sigri að halda. Jafntefli gæti dugað Njarðvíkingum ef Afturelding tapar sínum leik en markatala Njarðvíkinga er fimm mörkum betri en Mosfellinga.

Afturelding fær hinsvegar ÍR í heimsókn í Mosfellsbæinn. Ef Njarðvíkingar vinna Grindavík þá er þetta hreinn úrslitaleikur um hvaða lið kemst í umspilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert