Stráir salti í sárin

Úlfur Arnar Jökulsson
Úlfur Arnar Jökulsson Ljósmynd/Kristinn Steinn

Úlfur Arnar Jökulsson þjálfari Fjölnis var svekktur með stórtap liðsins gegn Keflavík suður með sjó í dag, 0:4, í 1. deild karla í fótbolta.

Liðið átti sína kafla í leiknum og var refsað fyrir öll mistök eins og Úlfur orðaði það. Fjölnir hafði tækifæri til að fara beint upp í efstu deild með sigri en sökum tapsins þá mætir liðið Aftureldingu í umspili um sæti í efstu deild.

Úlfur var spurður hvort tapið væri þyngra eftir að kom í ljós að sigur hefði tryggt liðinu sæti í Bestu deildinni að ári?

„Það stráir salti í sárin, ég viðurkenni það,“ sagði hann við mbl.is og hélt áfram:

4:0 lítur illa út en þessar tölur gefa enga mynd af því hvernig leikurinn þróaðist. Keflvíkingar refsuðu okkur fyrir hver einustu mistök sem við gerðum. Það segir allt sem segja þarf að markmaðurinn þeirra var valinn maður leiksins, við gjörsamlega óðum í færum í seinni hálfleik og getum sjálfum okkur um kennt að hafa ekki nýtt færin okkar betur og ekki geta varist mörkunum þeirra betur."

Hvaða skilaboð varstu með leikmanna í hálfleik, var uppfærð taflan skoðuð í klefanum?

„Við pældum ekki í neinu nema sjálfum okkur í hálfleik. Við töluðum líka um það skýrt fyrir leikinn að við ætluðum bara að einbeita okkur að sjálfum okkur og svo skoða stöðuna eftir leik. Mér fannst við vera í fínni stöðu að vera 1:0 undir í hálfleik þar sem að aðstæður voru mjög erfiðar og við ætluðum að nýta vindinn vel og setja góða pressu á þá.

Við byrjuðum svo seinni hálfleikinn skelfilega, völlurinn er þurr og erfiður og við getum ekki verið að dútla með boltann á miðjunni því þá missum við hann mjög klaufalega í byrjun seinni hálfleiks og fáum á okkur mark. Það var eiginlega vendipunktur leiksins, þetta annað mark Keflvíkinga. Í kjölfarið þá vöðum við í færum og það er bara lygilegt að það varð ekki 2:1 áður en það varð 3:0.

Þetta er svolítið sagan okkar í sumar, við þurfum oft aðeins fleiri færi en andstæðingurinn til að skora," sagði Úlfur að lokum í samtali við mbl.is

Þess má geta að smá vafi var á útnefningu vallarþular á manni leiksins. Við í blaðamannastúku heyrðum að það ætti að nefna leikmann númer 26 í Keflavík, Ásgeir Helga Orrason, sem mann leiksins en hann átti mjög góðan leik.

Svo var nafn nafna hans, Ásgeirs Orra Magnússonar markmanns sagt í kallkerfinu. Mjög álík nöfn og mögulegur misskilningur en svona er þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert