Breiðablik hafði betur gegn HK, 5:3, á heimavelli í dag í 22. umferð Bestu deildar karla í fótbolta, þeirri síðustu áður en henni verður skipt í efri og neðri hluta.
Breiðablik er með 49 stig á toppnum, þremur stigum á undan Víkingi. HK er í tíunda sæti með 20 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.
Breiðablik byrjaði betur og sótti stíft fyrstu mínúturnar. Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 9. mínútu. Viktor Karl Einarsson potaði þá boltanum í netið úr teignum eftir góðan samleik við Kristófer Inga Kristinsson.
Viktor Karl fékk úrvalsfæri til að skora annað mark Breiðabliks og annað markið sitt á 15. mínútu en Christoffer Petersen í marki HK varði glæsilega frá honum þegar Viktor slapp einn í gegn.
HK-ingar nýttu sér það því Eiður Gauti Sæbjörnsson jafnaði á 25. mínútu með skalla af stuttu færi eftir góða aukaspyrnu frá Ívari Erni Jónssyni.
Aðeins þremur mínútum síðar kom Arnþór Ari Atlason HK-ingum í 2:1 er hann slapp í gegn eftir hræðilega sendingu til baka frá Davíð Ingvarssyni.
HK-ingar voru nálægt því að komast í 3:1 á 36. mínútu er Eiður skallaði í slá af stuttu færi og boltinn datt ofan á marklínuna, en fór ekki yfir hana. Reyndist það síðasta góða færið í hálfleiknum og HK fór með eins marks forskot inn í hálfleikinn.
Það tók Breiðablik níu mínútur í seinni hálfleik að eyðileggja það forskot því Kristófer Ingi Kristinsson jafnaði á 54. mínútu. Hann fékk þá boltann á vinstri kantinum, sótti á vörnina og lagði boltann hnitmiðað í fjærhornið.
Eiður Gauti var hársbreidd frá því að koma HK í 3:2 á 58. mínútu er hann slapp í gegn og vippaði yfir Anton Ara í markinu. Stefndi boltinn í markið en Viktor Örn Margeirsson bjargaði glæsilega á línu.
Örfáum sekúndum síðar slapp Aron Bjarnason í gegn eftir sendingu frá Höskuldi Gunnlaugssyni og refsaði grimmilega. Þremur mínútum eftir það var staðan orðin 4:2 því Höskuldur skallaði boltann í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu Kristins Jónssonar.
Blikar voru ekki hættir því Aron Bjarnason gerði sitt annað mark og fimmta mark Breiðabliks á 78. mínútu er hann afgreiddi boltann skemmtilega upp í þaknetið eftir sprett og sendingu frá Davíð.
Atli Þór Jónasson skoraði sárabótamark fyrir HK er hann gerði þriðja mark gestanna í uppbótartíma er hann slapp í gegn og skaut í slá og inn. Nær komst HK ekki og Breiðablik vann sigur í markaleik.