„Við töluðum um að halda okkar plani í seinni hálfleik,“ sagði Viktor Örn Margeirsson leikmaður Breiðabliks í samtali við mbl.is eftir sigurinn á grönnunum í HK, 5:3, í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Breiðablik komst yfir snemma leiks en var undir í hálfleik, 2:1.
„Við hleyptum þeim í stöður og gerðum klaufamistök sem verður til þess að þeir skora þessi mörk. Þetta voru fimm mínútur af klaufaskap hjá okkur og það var sterkt hjá þeim að nýta það. Við töluðum um að halda okkar áfram og að það myndi eitthvað gefa sig, sem gerðist svo,“ sagði Viktor.
Að hans mati var sigur Breiðabliks verðskuldaður, en bæði lið hefðu getað skorað fleiri mörk. „Mín upplifun af leiknum var að við vorum sterkari og sköpuðum helling af tækifærum á meðan þeir skora úr nánast öllum sínum færum.“
Viktor bjargaði því að HK kæmist í 3:2 er hann bjargaði á línu með því að þruma boltanum í þverslána á eigin marki. Nokkrum sekúndum síðar var Aron Bjarnason búinn að skora hinum megin.
„Hann komst í gegn og reyndi vippuna. Ég hugsaði hvernig í andskotanum ég ætti að koma boltanum frá því hann skoppaði asnalega. Ég vissi ekki hvað var að gerast eða hvert ég væri að fara að setja hann. Ég vildi bara koma boltanum frá. Svo var þetta enn betra þegar við fórum upp hinum megin og skoruðum,“ útskýrði hann.
HK vann Breiðablik tvisvar á síðustu leiktíð en Blikar hefndu í ár með tveimur sigrum á nágrönnunum. „Það er alltaf gott að vinna HK,“ sagði Viktor.