Arnar: Lykilorðið var miskunnarleysi

Víkingar fagna marki í kvöld.
Víkingar fagna marki í kvöld. mbl.is/Eyþór

Víkingur valtaði yfir Fylki, 6:0, í lokaumferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Árbænum í kvöld. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var að vonum sáttur er hann mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Ég var bara virkilega ánægður með strákana. Virkilegt hungur í þeim, gott viðhorf og hugarfar eftir erfiðan leik á móti KR. Að mæta hingað og aldrei leyfa Fylkismönnum að komast inn í leikinn.

 Við náðum að læsa þá inni á eigin vallarhelmingi frá upphafi og við vorum að nýta færin okkar. Vorum grimmari í öllum okkar aðgerðum.

Seinni hálfleikur var ekkert ósvipaður og það sem gerðist á móti KR. Þar sem að það var ekki beint okkar að halda áfram leikhraðanum heldur þeirra að koma og sækja eitthvað.

Hrós á þá, þeir reyndu eitthvað og voru óheppnir að skora ekki eitt eða tvö mörk en við refsuðum illilega þegar þeir reyndu að brjóta leikinn upp,“ sagði Arnar í viðtali við mbl.is eftir leik.  

Víkingur byrjaði viðureignina frábærlega og var 3:0 yfir eftir rétt rúman hálftímaleik.

„Lykilorðið í þessum undirbúningi var að vera miskunnarlaus. Í öllum okkar aðgerðum, skiptir það svo miklu máli. Líka þegar strákarnir sjá gulrótina, bikarúrslitaleikur á laugardaginn.  

Það verður alvöru hausverkur. Talandi um að vera miskunnarlaus þá þarf ég að vera miskunnarlaus að velja í liðin á laugardaginn. Ekki bara byrjunarlið, það verða stór nöfn sem verða fyrir utan hóp, það er ekki flóknara en það.

Þetta sýnir það að til að viðhalda árangri þá þurfa allir vera með allt sitt á hreinu hvað varðar viðhorf og hungur og þess háttar. Mér fannst við gera það virkilega vel í dag.“

Nikolaj Hansen, leikmaður Víkings, fór snemma af velli en hann skoraði annað mark Víkinga í kvöld. Arnar sagði að hann hefði verið byrjaður að kvarta undir verkjum í lærinu.

„Hann var byrjaður að kvarta aðeins undan lærinu, aðeins stífur. Mögulega einhverjar undirlagsbreytingar sem höfðu áhrif á það. Þannig það var ekkert vit í að láta hann spila mínútu lengur.“

Víkingur mætir KA í bikarúrslitaleik á laugardaginn næsta.

„Núna í kvöld byrjum við að undirbúa þann leik með góðri endurheimt og næringu. Þjálfarateymið aðeins byrjað að skoða KA. Mantran hingað til í öllum þessum leikjum er bara einn leikur í einu og svo bara snúa okkur að KA.

Klúbburinn er jafn vel stemmdur. Það er búið að selja gríðarlega vel af miðum. Talandi um að leikmenn séu ekki saddir þá held ég að stuðningsmenn séu ekki saddir heldur og þeir vilja að ævintýrið haldi áfram þannig að við gefum allt í leikinn á laugardaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert