Fáum fáranlega auðveld mörk á okkur

Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, í baráttunni við Oliver Ekroth.
Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, í baráttunni við Oliver Ekroth. mbl.is/Eyþór

Fylkir þurfti að þola 6:0-skell á heimavelli þegar liðið fékk Víking í heimsókn í lokaumferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Við bara töpuðum fyrir miklu betra liði. Það er nú bara staðreynd. Við ætluðum okkur að fá góð úrslit í dag og fá alvöru leik en við vorum ekki góðir. Víkingar voru bara miklu betri en við og bara keyrðu yfir okkur.  

Við lágum í mikilli lágpressu í fyrri hálfleik og í marki eitt og þrjú eru tíu manns fyrir aftan boltann og þeir skora fyrir utan teig. Tvö mjög góð mörk og staðan 3:0 í hálfleik.

Við ætluðum aðeins að fara á þá. Reyna að fara framar á völlinn og reyna að nýta smá vind með okkur en okkur var bara refsað,“ sagði Rúnar Páll í viðtali við mbl.is eftir leik.

Var eitthvað jákvætt sem þið getið tekið út úr þessum leik?

„Það var ekki kannski nema einhverjar tíu mínútur. Við reyndum hvað við gátum. Kom svona ágætis kraftur í seinni hálfleik en við erum bara að fá fáránlega auðveld mörk á okkur.

Þótt að Víkingar hafi gert það vel þá eru þeir að fara á bak við hafsenta okkar tvívegis eða þrívegis. Það var ekki nógu vel gert,“ sagði Rúnar Páll.

Fylkir situr á botninum þegar deildinni er skipt í efri og neðri hluta. Rúnar Páll er brattur fyrir úrslitakeppninni.

„Högg í kvöld, við erum fúlir. Áttum ekki nógu góða frammistöðu þannig að við erum fúlir yfir því en það þýðir ekki að væla yfir því.

Við þurfum að hrista þetta af okkur og vera klárir í þessa úrslitakeppni því við höfum bullandi séns á að bjarga okkur og halda okkur í deild þeirra bestu.

Það hefur ekkert breyst, það er markmið okkar og við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda okkur í þessari deild.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert