Haukar í 1. deild og Völsungur sigraði KR

Júlía Margrét Sveinsdóttir fagnar marki sínu fyrir Völsung gegn KR …
Júlía Margrét Sveinsdóttir fagnar marki sínu fyrir Völsung gegn KR ásamt Bertu Maríu Björnsdóttur. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Haukar tryggðu sér í gær sæti í 1. deild kvenna í knattspyrnu og Völsungur stendur betur að vígi í einvígi við KR um annað sætið eftir sigur í leik liðanna í 2. deildinni á Húsavík í gær.

Völsungur vann leikinn 3:2 og Haukar unnu ÍH á sama tíma, 6:1. Þar með eru Haukakonur komnar með 47 stig en KR er með 42 stig og Völsungur 41. KR á aðeins einn leik eftir en hin liðin tvo leiki.

Haukar eru því komnir upp og Völsungur er með annað sætið í sínum höndum en þarf til þess að tryggja það og fylgja Hafnarfjarðarliðinu upp í 1. deild að vinna ÍH á heimavelli og svo Hauka á útivelli í lokaumferðinni.

KR á aðeins eftir heimaleik gegn Einherja og verður að vinna hann og treysta á að Völsungur fái ekki meira en fjögur stig úr sínum tveimur leikjum til að hreppa 1. deildarsætið.

Júlía Margrét Sveinsdóttir kom Völsungum yfir gegn KR eftir rúmlega hálftíma leik. Staðan var 1:0 í hálfleik og heimastúlkur bættu við í upphafi seinni hálfleiks þegar Halla Bríet Kristjánsdóttir og Ólína Helga Sigþórsdóttir skoruðu mörk með nokkurra mínútna millibili.

KR-ingar minnkuðu muninn þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum og þar var að verki Makayla Soll. Þegar rétt rúmar tíu mínútur voru til leiksloka skoraði Eva María Smáradóttir fyrir KR og staðan var þá orðin 3:2. Það urðu lokatölurnar og dýrmæt þrjú stig fóru til Völsungs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert