Aron Sigurðarson, markaskorari KR, í 4:1-tapi gegn Val í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld var svekktur þegar hann ræddi við mbl.is eftir leik. Aron minnkaði muninn fyrir KR í 2:1 en nær komst KR ekki, þrátt fyrir góðan kafla eftir markið.
„Eins lélegur og fyrri hálfleikurinn var, þá var seinni hálfleikurinn mjög góður. Þeir voru ofan á í öllu og með miklu meiri ákefð. Við liggjum á þeim en þeir skora þetta þriðja mark. Við hefðum getað gert betur í öllum mörkunum.
Þetta er saga sumarsins. Við hleypum inn allt of auðveldum mörkum og það er erfitt að ná í úrslit þegar við fáum þrjú eða fjögur mörk á okkur í leik,“ sagði Aron.
KR-ingar náðu sér engan veginn á strik í fyrri hálfleik og sköpuðu sér lítið gegn spræku Valsliði.
„Það var orkuleysi. Ég veit ekki hvað veldur. Þetta er nágrannaslagur og það á ekki að þurfa að gíra okkur upp í þennan leik. Í fyrri hálfleik mætum við ekki til leiks. Það var engin orka eða ákefð. Það kom síðan í seinni.
Það er ömurlegt að koma okkur í þessa stöðu, að þurfa að lenda undir og reyna að klóra í bakkann. Í staðinn fyrir að gera þetta frá byrjun,“ sagði hann svekktur.
Í stöðunni 2:0 fyrir Val átti Ástbjörn Þórðarson hressilega tæklingu þegar hann straujaði Gylfa Þór Sigurðsson. Við það virtust KR-ingar vakna til lífsins.
„Það var kominn tími til. Það voru liðnar tæpar 60 mínútur og við vöknum við eina tæklingu. Stundum þarf bara eina tæklingu eða pressu til að kveikja í liðinu. Það kom kannski of seint,“ sagði hann.
Valsmenn voru alls ekki sáttir við tæklinguna og úr urðu minniháttar slagsmál í kjölfarið. Aron var einn fjögurra leikmanna sem fékk spjald í kjölfarið.
„Ég var að reyna að róa mannskapinn. Ég var inni í þvögunni og þess vegna spjaldar hann mig. Það er þreytt því ég er í banni í næsta leik. Ég spurði hann út í það og það og hann talaði um einhvern æsing. Hann varð að spjalda einhvern.“
KR er þremur stigum fyrir ofan fallsæti þegar deildinni er nú skipt í tvennt. Fram undan eru því fimm úrslitaleikir hjá Vesturbæjarliðinu.
„Mér líst vel á þetta. Þetta eru fimm úrslitaleikir sem við erum að fara í. Við tökum eitthvað úr þessum leik og ég er spenntur fyrir þessum fimm leikjum sem við förum í,“ sagði Aron.