Halldór Árnason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, hefur náð einstökum árangri sem nýliði í efstu deild karla og þegar slegið met.
Halldór er á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari í meistaraflokki eftir að hafa áður verið aðstoðarþjálfari Óskars Hrafns Þorvaldssonar hjá Kópavogsfélaginu undanfarin fjögur ár.
Breiðablik fékk 49 stig í hefðbundinni tvöfaldri umferð í Bestu deild karla, eftir að hafa sigrað HK, 5:3, í 22. leik sínum í deildinni á Kópavogsvelli í gær.
Þar með sló Halldór nýliðamet Heimis Guðjónssonar í stigafjölda í deildinni. Heimir tók við liði FH fyrir tímabilið 2008, eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar, og á hans fyrsta ári fékk FH 47 stig og það dugði liðinu til að standa uppi sem Íslandsmeistari þá um haustið.
Halldór á svo að sjálfsögðu eftir fimm leiki til viðbótar með Breiðabliki í efri hluta Bestu deildarinnar.