Víkingur með yfirburði í Árbænum

Víkingar fagna í kvöld.
Víkingar fagna í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Víkingur hafði betur gegn Fylki, 6:0, í lokaumferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Árbænum í kvöld. 

Úrslitin þýða að Víkingur fer aftur á toppinn með 49 stig þegar deildinni er skipt í efri og neðri hluta. Fylkir er áfram á botninum með 17 stig.

Víkingar voru ekki lengi að komast yfir en á fjórðu mínútu skoraði Ari Sigurpálsson með góðu skoti. Ari vann boltann af Matthias Præst í teig Fylkis og skrúfaði síðan boltanum í vinkilinn. 

Nikolaj Hansen tvöfaldaði forystu Víkings á 13. mínútu. Ari kom með góða fyrirgjöf frá hægri og stýrði Hansen boltanum snyrtilega í fjærhornið. 

Yfirburðir Víkinga héldu áfram og á 33. mínútu skoraði Danijel Dejan Djuric glæsilegt mark. Valdimar Þór Ingimundarson kom boltanum á Danijel vinstra megin í teignum. Hann hljóp með boltann frá markinu og hamraði síðan boltanum í fjærhornið frá vítateigslínunni.  

Síðari hálfleikurinn byrjaði nokkuð rólega. Víkingar voru líkt og í fyrri hálfleik meira með boltann en lítið var um færi. 

Varamaðurinn Theodór Ingi Óskarsson var nálægt því að minnka muninn í 3:1 á 60. mínútu þegar hann átti glæsilegt skot en boltinn fór í stöngina. 

Á 63. mínútu skoraði Ari annað mark sitt og fjórða mark Víkinga. Aron Elís Þrándarson kom með sendingu inn fyrir á Ara sem skoraði af miklu öryggi. 

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði varamaðurinn Daði Berg Jónsson fimmta mark Víkings. Valdimar kom með sendingu inn fyrir á Helga Guðjónsson sem í stað þess að skjóta sendi boltann á Daða sem kláraði í opið markið. 

Helgi setti síðasta nagla í kistu Fylkis með marki á 82. mínútu. Gísli Gottskálk Þórðarson átti stórkostlega sendingu á Helga sem lék á Ólaf Kristófer Helgason í marki Fylkis og skoraði síðan í autt markið. 

Fleiri urðu mörkin ekki og lokaniðurstaða var 6:0-sigur Víkinga



Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Fylkir 0:6 Víkingur R. opna loka
90. mín. Tvær mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert