Tveir af reyndari leikmönnum Bestu deildar karla í fótbolta, báðir Norðlendingar að ætt og uppruna, náðu þeim áfanga um helgina að spila sinn 300. deildaleik á ferlinum.
Atli Sigurjónsson, kantmaðurinn reyndi hjá KR, lék sinn 300. deildaleik þegar KR tapaði 3:0 fyrir Víkingi á föstudagskvöldið en bætti svo við 301. leiknum gegn Val í gærkvöld. Atli hefur leikið 234 af þessum leikjum í efstu deild, þar af 184 fyrir KR þar sem hann er orðinn fimmti leikjahæstur í deildinni frá upphafi. Þá lék Atli 33 leiki í deildinni með Breiðabliki og 17 með Þór, og auk þess 67 leiki með Þór í 1. deild.
Hrannar Björn Steingrímsson, bakvörðurinn reyndi hjá KA, lék sinn 300. deildaleik þegar KA tapaði 1:0 fyrir ÍA á Akranesi. Þar af eru 133 leikir með KA í efstu deild en þar er hann nú orðinn fjórði leikjahæstur frá upphafi. Hina 167 deildaleikina hefur Hrannar spilað með KA og Völsungi í 1., 2. og 3. deild.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, lék sinn 200. leik í efstu deild þegar liðið vann HK 5:3 í Kópavogsslagnum á sunnudaginn, og hélt upp á það með góðu skallamarki. Allir 200 leikir Höskuldar í deildinni eru fyrir Breiðablik og hann er þriðji leikmaður félagsins sem nær þeim leikjafjölda á eftir Andra Rafni Yeoman (293) og Damir Muminovic (225).
Í sama leik varð Arnþór Ari Atlason fyrstur í sögu HK til að leika 100 leiki fyrir félagið í efstu deild og hann hélt líka upp á þann áfanga með marki. Arnþór var þar með líka fyrstur til að skora 20 mörk fyrir HK í efstu deild.
Emil Atlason skoraði sitt 60. mark í efstu deild þegar hann gerði sigurmark Stjörnunnar gegn Vestra úr vítaspyrnu, 1:0. Af þeim eru nú 44 fyrir Stjörnuna þar sem hann er þriðji markahæstur frá upphafi. Aðeins fjórir aðrir af núverandi leikmönnum í deildinni hafa skorað 60 mörk, þeir Patrick Pedersen (113), Óskar Örn Hauksson (88), Hilmar Árni Halldórsson (68) og Hallgrímur Mar Steingrímsson (63).
Þá náðu þrír leikmenn þeim áfanga í 22. umferðinni að spila sinn 100. leik í efstu deild hér á landi. Það eru þeir Davíð Ingvarsson úr Breiðabliki, í leiknum við HK, Karl Friðleifur Gunnarsson úr Víkingi, gegn Fylki í gærkvöld, og Finnur Tómas Pálmason úr KR, gegn Val í gærkvöld.
Patrick Pedersen er kominn í 3.-4. sætið yfir markahæstu menn efstu deildar karla frá upphafi eftir að hafa skorað eitt marka Vals í sigrinum á KR í gærkvöld, 4:1. Þetta var 113. mark Patricks í deildinni og hann jafnaði við Atla Viðar Björnsson sem skoraði 113 mörk fyrir FH. Hann jafnaði um leið met Atla í mörkum fyrir eitt félag í deildinni. Aðeins Tryggvi Guðmundsson (131) og Ingi Björn Albertsson (126) hafa skorað fleiri mörk en þeir Patrick og Atli.
Víkingar bættust í þann hóp félaga sem hafa fengið 1.000 stig samtals í efstu deild karla með sigrinum á KR á föstudagskvöldið. Eftir að hafa unnið Fylki í gærkvöld, 6:0, eru stigin orðin 1.004 talsins. Þar með hafa níu félög náð þeim stigafjölda frá upphafi Íslandsmótsins árið 1912. Hin eru KR (2.110), Valur (2.024), ÍA (1.672), Fram (1.519), FH (1.272), Keflavík (1.212), ÍBV (1.192) og Breiðablik (1.091).
Úrslitin í 22. umferð:
KR - Víkingur R. 0:3 (20. umferð)
Fram - FH 3:3
Breiðablik - HK 5:3
ÍA - KA 1:0
Stjarnan - Vestri 1:0
Fylkir - Víkingur R. 0:6
Valur - KR 4:1
Markahæstir í deildinni:
16 Viktor Jónsson, ÍA
14 Patrick Pedersen, Val
11 Emil Atlason, Stjörnunni
11 Jónatan Ingi Jónsson, Val
10 Benoný Breki Andrésson, KR
9 Gylfi Þór Sigurðsson, Val
9 Helgi Guðjónsson, Víkingi R.
8 Ari Sigurpálsson, Víkingi R.
8 Björn Daníel Sverrisson, FH
8 Danijel Dejan Djuric, Víkingi R.
8 Höskuldur Gunnlaugsson, Breiðabliki
8 Valdimar Þór Ingimundarson, Víkingi R.
8 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
7 Sigurður Bjartur Hallsson, FH
6 Arnþór Ari Atlason, HK
6 Atli Þór Jónasson, HK
6 Guðmundur Magnússon, Fram
6 Hallgrímur Mar Steingrímsson, KA
6 Ísak Snær Þorvaldsson, Breiðabliki
6 Kjartan Kári Halldórsson, FH
6 Nikolaj Hansen, Víkingi R.
6 Viktor Karl Einarsson, Breiðabliki
Næstu leikir:
Víkingur - FH
Breiðablik - ÍA
Valur - Stjarnan
KA - HK
Fram - Fylkir
KR - Vestri
Leikið er dagana 22. til 24. september en Víkingur og KA mætast í bikarúrslitaleiknum 21. september þannig að þeirra leikir verða væntanlega þann 24.