Keflavík er í afar góðum málum í viðureign sinni gegn ÍR í undanúrslitum umspils um sæti í Bestu deild karla í fótbolta. Keflvíkingar unnu sannfærandi útisigur í fyrr leiknum í dag, 4:1. Sigurliðið í einvíginu mætir annað hvort Aftureldingu eða Fjölni í úrslitum.
Seinni leikur liðanna fer fram í Keflavík næsta sunnudag og má segja að Keflavík sé komin með annan fótinn á Laugardalsvöll.
Leikurinn fór rólega af stað en ÍR-ingar voru hættulegri fyrstu 10 mínúturnar. Það var svo á 11. mínútu að Keflavík komst 1:0 yfir með marki frá Kára Sigfússyni eftir undirbúning frá Mihael Mladen.
Eftir 24. mínútna leik skoruðu Keflvíkingar aftur og var það Ásgeir Helgi Orrason sem skoraði það eftir undirbúning frá Kára Sigfússyni sem var allt í öllu í sóknarleik Keflvíkinga.
Þremur mínútum síðar var staðan orðinn 3:0 Keflavík í vil. Varnarmaður ÍR gerði sig sekan um slæm varnarmistök og Frans Elvarsson komst inn í sendinguna renndi boltanum á Mihael Mladen sem kláraði örugglega framhjá Vilhelm í marki ÍR-inga.
ÍR-ingar voru alls ekki slakari aðilinn þrátt fyrir að vera 3:0 undir og uppskáru þeir mark á 44. mínútu þegar Hákon Dagur Matthíasson skoraði eftir góða skyndisókn og staðan orðinn 3:1 Keflavík í vil.
Síðari hálfleikurinn fór vel af stað fyrir ÍR þegar Hákon Dagur átti skot í þverslá á 51. mínútu og voru ÍR-ingar líklegri til að minnka muninn.
Á 65. mínútu fengu ÍR-ingar dauðafæri eftir langt innkast og Renato Punyed var allt í einu einn inni í markteig en setti boltann beint á Ásgeir Orra sem varði frábærlega með löppunum.
Það var svo gegn gangi leiksins þegar Kári skoraði sitt annað mark í leiknum og kom Keflavík í 4:1 og aftur var það Mihael Mladen sem lagði boltann á Kára.
Á 80. mínútu fengu ÍR-ingar vítaspyrnu þegar Axel Ingi Jóhannesson virtist slá til Bergvins Fannars Helgasonar og Hákon Dagur fór á punktinn en skaut boltanum hátt yfir markið og 4:1 sigur Keflavík staðreynd.
4:1 voru ekki endilega sanngjörn úrslit en gæði Keflvíkinga fram á við gerðu gæfumuninn í Breiðholtinu í dag.