Afturelding lagði Fjölni, 3:1, í fyrri leik liðanna í umspilinu í 1. deild karla í knattspyrnu í Mosfellsbæ í kvöld. Elmar Kári Enesson Cogic, leikmaður Aftureldingar, mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.
„Bara fínn leikur af okkar hálfu. Við vorum grimmir allan tímann og spiluðum flottan bolta. Vildum þetta gríðarlega mikið og náðum að skora þrjú. Ég er mjög ánægður með það,“ sagði Elmar Kári.
Elmar Kári skoraði annað mark Aftureldingar í kvöld og fékk þar að auki vítaspyrnu sem gat komið Aftureldingu í 4:1 en Halldór Snær Georgsson, markvörður Fjölnis, varði frá honum.
„Bara flott sko. Ég er alltaf ánægður að geta hjálpað liðinu, ég er nú ekkert að pæla í sjálfum mér. Hvernig liðið spilar og ef ég get hjálpað strákunum þá reyni ég mitt besta eins og ég geri í öllum leikjum.
Það virkaði í dag, skilaði mér marki og ég hefði getað sett annað. Það hefði verið helvíti flott. En ég treysti nú á strákana að klára þetta, koma okkur í úrslitaleikinn, það væri frábært.“
Þú færð seinna gula spjald eftir leik sem þýðir að þú ert í leikbanni í næst leik. Hvað gerðist þarna í lokin?
„Ég klúðraði þessu víti og var bara pirraður. Missi hausinn, þetta er ekkert flóknara en það.“
Þú vissir ekki af því að þú værir á leið í bann í úrslitaleik umspilsins, ef Afturelding kemst þangað, fyrir fyrra gula spjaldið?
„Nei, ég vissi ekki af þessu.“
Þetta fyrra gula spjald sem þú fékkst fyrir leikaraskap, varstu ósáttur með það?
„Ósáttur með það? Bara sparkar í mig, skil ekki hvað er í gangi. Af hverju er hann að gefa mér gult? Þetta er mjög skrítið. Ég skildi þetta ekki þannig að eðlilega var ég ósáttur við það. En ég meina hann er dómarinn og hann er að reyna gera sitt besta, ég virði það.“
Vissirðu ekki af því á meðan leikurinn var í gangi að þú værir í leiðinni í leikbann í úrslitaleiknum fyrir það spjald?
„Jú, það gæti verið. Það var ekki í hausnum á mér á þeim tíma þannig að ég gerði mér ekki grein fyrir því þá.“