Afturelding sigraði í svakalegum leik

Oliver Bjerrum Jensen með boltann í kvöld.
Oliver Bjerrum Jensen með boltann í kvöld. Eyþór Árnason

Afturelding hafði betur gegn Fjölni, 3:1, í fyrri leik liðanna í umspili 1. deildar karla í knattspyrnu. 

Seinni leikurinn fer fram á mánudaginn klukkan 15.45 á heimavelli Fjölnis í Grafarvoginum. 

Fyrsta mark leiksins kom á annarri mínútu en Aron Jóhannsson skoraði það fyrir Aftureldingu. Það kom eftir glæsilegt hlaup frá Hrannari Snæ Magnússyni upp vinstri kantinn sem lagði boltann út í teiginn á Aron sem hamraði boltanum í netið. 

Leikurinn róaðist í kjölfarið. Fjölnismenn voru meira með boltann en náðu ekki að skapa sér nein dauðafæri. 

Elmar Kári Enesson Cogic fékk gott færi á 19. mínútu til að tvöfalda forystu Aftureldingar. Aron Elí Sævarsson kom með fastan bolta fyrir markið á Elmar Kára sem átti slakt skot beint á Halldór Snæ Georgsson í marki Fjölnis. 

Staðan var 1:0, Aftureldingu í vil í hálfleik. 

Síðari hálfleikur byrjaði mjög rólega líkt og sá fyrri endaði. 

Fjölnir jafnaði metin á 64. mínútu með marki frá Daníel Ingvari Ingvarssyni. Júlíus Mar Júlíusson átti sprett upp völlinn og kom síðan með góða stungusendingu á Daníel Ingvar sem skoraði. 

Aðeins fjórum mínútum síðar kom Elmar Kári Enesson Cogic Aftureldingu aftur yfir með góðu marki. Elmar fékk boltann hægra megin í teignum, tók nokkur skæri og negldi síðan boltanum í nærhornið.  

Sigurpáll Melberg Pálsson innsiglaði sigur Aftureldingar með glæsilegu marki á lokamínútu venjulegs leiktíma. Sigurpáll fékk boltann rétt utan teigs og negldi boltanum í vinkilinn. 

Á þriðju mínútu uppbótartíma fór varamaðurinn Sævar Atli Hugason niður í teig Fjölnis og benti Þórður Þorsteinn Þórðarson, dómari leiksins, á punktinn. Elmar Kári tók vítaspyrnuna en Halldór Snær fór í rétt horn og varði frá honum. 

Lokaniðurstaða í kvöld var 3:1-sigur Aftureldingar sem fer með tveggja marka forystu í síðari leikinn.

Eftir leik fékk Elmar Kári rautt spjald sem þýðir að hann er í leikbanni í næsta leik. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Afturelding 3:1 Fjölnir opna loka
90. mín. Sigurpáll Melberg Pálsson (Afturelding) skorar 3:1 - Þvílíkt mark! Boltinn dettur fyrir Sigurpál rétt utan teigs sem neglir boltanum í vinkilinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert