Gæti skrifað heila bók um málið

Oliver Bjerrum Jensen með boltann í kvöld.
Oliver Bjerrum Jensen með boltann í kvöld. mbl.is/Eyþór

Afturelding vann 3:1 sigur á Fjölni í fyrri leik liðanna í umspili 1. deildar karla í knattspyrnu í dag. Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Ánægður með strákana í dag. Virkilega sterkir, sérstaklega sterkt að skora tvö mörk í lokin og stækka forskotið. Mér fannst varnarleikurinn góður, bróðurpartinn af leiknum.

Mikil trú og liðsheild í þessu. Ánægður með leikinn í dag en það er mikið eftir, það eru 90 mínútur eftir af fótbolta og við þurfum að fara í Grafarvoginn og gera ennþá betur.“

Afturelding fékk kjörið tækifæri til að stækka forystuna fyrir seinni leikinn þegar liðið fékk víti undir lok leiks. Elmar Kári Enesson Cogic fór á punktinn en Halldór Snær Georgsson, markvörður Fjölnis, varði frá honum.

„Getur horft á það með tvennum augum. Ég meina auðvitað svekkjandi en við gerum frábærlega að fá þetta víti. Menn hafa klikkað á vítaspyrnu áður og við þurfum að stíga upp og klára dæmið,“ sagði Magnús Már.

Það var góð mæting í Mosfellsbæ og var Magnús Már ánægður með stemninguna.

„Við vildum koma grimmir til leiks, þetta er okkar heimavöllur. Geggjuð stemning hérna í kvöld. Rosalega skemmtilegt að spila undir fljóðljósunum á blautum gervigrasvelli með okkar stuðningsmenn í geggjuðu stuði. Frábær stuðningur í kvöld og ég held að það hafi svona hjálpað okkur ná þessum sigri,“ sagði Magnús.

Elmar Kári fær annað gult spjald eftir leik og þar með rautt ekki satt?

„Jú í raun gerði hann það, já. Veit svo sem ekki hvað er hægt að segja um það. Ég held að þú gætir skrifað heila bók um það sem hægt væri að segja um það mál. Hann er í leikbanni í næsta leik.“

En hvað gerir hann til að fá þetta seinna gula spjald?

„Hann dæmdi á eitthvað brot. Ýtti leikmanni þeirra. Það er bara eins og það er.“

Brotið fer sem sagt fram í leiknum en spjaldið er gefið eftir leik?

„Já, það er eins og þeir hafi tekið eftir þessu eftir á.“

Seinni leikur liðanna fer fram klukkan 15:45 næsta mánudag. Magnús Már hvetur stuðningsmenn til að mæta á völlinn.

„Ég held að það sé engum í hag að spila leik klukkan 15:45 á mánudegi. Auðvitað væri lang skemmtilegast að spila að kvöldi til. Því miður virðist það ekki vera hægt.

 Kemur illa líka að stuðningsmönnum okkar. Við áttum stúkuna í kvöld. Ég skora á alla Mosfellinga að taka sér frí í vinnu og taka eitt skróp á sig í skólanum og mæta. Við þurfum á öllum stuðningi að halda,“ sagði Magnús Már að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert