Treystum á að fólk hætti fyrr í vinnunni

Baldvin Þór Berndsen í skallabaráttu í kvöld.
Baldvin Þór Berndsen í skallabaráttu í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Ef við spilum eins og við spiluðum hérna í dag upp í Dalhúsum þá slátrum við þeim, það er ekki spurning,“ sagði Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis, eftir 3:1-tap gegn Aftureldingu í fyrri leik liðanna í umspili 1. deildar karla í knattspyrnu.

Afturelding tók forystuna á annarri mínútu með marki frá Aroni Jóhannssyni.

„Mjög fúlt að fá á sig þetta mark eftir stuttan tíma en ég er ánægður með svarið hjá strákunum. Mér fannst við taka leikinn yfir í kjölfarið og í raun og veru yfirspila þá þangað til við jöfnum. Þá er rosa svekkjandi að fá á sig þetta annað mark,“ sagði Úlfur í viðtali við mbl.is eftir leik.

Fjölnir fékk gott færi til að jafna metin stuttu eftir annað mark Aftureldingar. Skömmu síðar skoraði Sigurpáll Melberg Pálsson glæsilegt mark og kom Aftureldingu í 3:1.

„Svo kristallast sumarið hjá okkur í því að við klúðrum dauðafæri á fjærstönginni og skjótum í utanverða stöngina fyrir opnu marki. Ég skil ekki hvernig hægt er að misnota svona færi.

Í staðinn að fara í burtu með 2:2 þá fáum við mark í andlitið á 90. mínútu og 3:1. Blessunarlega hélt Halldór [Snær Georgsson] okkur á lífi með að verja þetta víti og þetta er bara tveggja marka forysta,“ sagði Úlfur.

Úlfur segir að liðið þurfi að vera klínískara í von um að fá betri úrslit í næsta leik.

„Við þurfum að vera klínískari. Ef við værum að nýta færin okkar þá værum við búnir að vinna þessa deild fyrir svona mánuði síðan. Við erum algjörir klaufar að nýta ekki færi okkar betur,“ sagði Úlfur.

Seinni leikur liðanna fer fram klukkan 15.45 á mánudaginn á heimavelli Fjölnis.

„Þetta eru bara birtuskilyrðin, við erum ekki með fljóðljós í Dalhúsum þannig að það þarf að spila þetta svona snemma. Við bara treystum á það að okkar stuðningsfólk, Fjölnisfólk og Grafarvogsbúar, hætti fyrr í vinnunni og mæti á völlinn og styðji okkur.

Við þurfum á því að halda að fólk mæti, styðji okkur og öskri okkur áfram. Við viljum hafa stúkuna fulla af gulum treyjum þegar við fögnum í leikslok og förum á Laugardalsvöll,“ sagði Úflur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert