„Það leggst virkilega vel í okkur að vera komnir hingað annað árið í röð. Við komum hingað í fyrra og erum reynslunni ríkari,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari karlaliðs KA í knattspyrnu, fyrir bikarúrslitaleik gegn Víkingi úr Reykjavík á Laugardalsvelli á morgun.
Liðin mættust einnig í bikarúrslitum á síðasta ári þar sem Víkingur fór með sigur af hólmi, 3:1.
„Eftir þau vonbrigði hugsuðum við að við skyldum standa upp og reyna aftur og við erum komnir aftur. Það er klárt mál að við erum komnir hingað til þess að vinna leikinn og fara alla leið,“ sagði Hallgrímur í samtali við mbl.is á kynningarfundi fyrir úrslitaleikinn í gær.
Þrátt fyrir að tapa fyrir sömu andstæðingum í bikarúrslitum á síðasta ári sagði hann KA ekki vera hefnd í huga.
„Nei, ekki hefnd. Víkingur hefur gert gríðarlega vel og er með rosalega gott lið. Ég ber rosalega mikla virðingu fyrir því hvernig þeir hafa komið sér hátt í íslenskum fótbolta.
Ég lít ekki á þetta sem hefnd. Í fyrra var eitt skref tekið til að nálgast þetta. Þetta var nýtt fyrir mörgum, voða gaman að koma á stærsta völl Íslands og þar fram eftir götunum.
En núna erum vup reynslunni ríkari og komnir til þess að vinna, ekki til þess að taka þátt í skemmtilegum leik.
Það er bara gaman að það sé gegn Víkingi því Víkingur hefur verið bestur á Íslandi undanfarin ár og það væri mjög góð tilfinning ef við náum að leggja þá.“
Spurður hvað KA þyrfti að gera til þess að leggja Víking að velli á morgun sagði Hallgrímur:
„Víkingar eru með frábært lið og rosalega góða menn fram á við. Þeir fara ofarlega með marga leikmenn og taka þannig áhættu.
Við þurfum að spila góðan varnarleik og þora að vera við sjálfir og spila okkar leik. Síðast þegar við mættum þeim í deildinni unnum við og héldum hreinu, unnum 1:0.
Það gefur mönnum sjálfstraust að hafa gert það í síðasta leik. Það er það sem við stefnum að, að þora að spila okkar leik og loka á suma þætti sem þeir eru virkilega sterkir í.“
Í úrslitaleik síðasta árs var mikil rigning og rok sem setti sitt mark á hann. Samkvæmt spám verður veðrið mun betra á morgun og býst hann við betri fótboltaleik en síðast fyrir vikið.
„Já, klárlega. Það var nú þannig að við töpuðum hlutkestinu í fyrra. Það vissu bæði lið að það yrði mikill vindur á annað markið og að svo myndi lægja.
Þeir skoruðu þá tvisvar eftir föst leikatriði á móti okkur og nýttu vindinn vel í fyrri hálfleik. Því er ég rosalega ánægður með að það sé gott bara gott veður á laugardag!“ sagði Hallgrímur að lokum í léttum tón.