Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, kveðst þess fullviss að liðið geti bundið enda á sigurgöngu Víkings úr Reykjavík í bikarkeppninni í knattspyrnu þegar liðin mætast í úrslitaleik á Laugardalsvelli á morgun.
„Þetta leggst mjög vel í okkur. Þetta er leikurinn sem ég held að allir vilji spila á Íslandi þannig að það er geggjað að ná því annað árið í röð.
Við erum náttúrulega reynslunni ríkari frá því í fyrra hvað varðar undirbúning og annað,“ sagði Ásgeir í samtali við mbl.is á kynningarfundi fyrir úrslitaleikinn í höfuðstöðvum KSÍ í gær.
Sömu lið mættust í úrslitaleiknum á síðasta ári þar sem Víkingar höfðu betur, 3:1, í miklu votviðri og roki. Veðurspáin er öllu betri fyrir morgundaginn: tíu gráða hiti, skýjað og hægur andvari.
„Það er bara geggjað og það er vonandi að það komi fleiri áhorfendur á leikinn en í fyrra og að úrslitin verði aðeins öðruvísi. Þá getur þetta ekki verið betra,“ sagði hann.
Spurður hvort KA-menn væru í hefndarhug eftir tapið fyrir Víkingi í bikarúrslitum síðasta árs sagði Ásgeir:
„Ég held að við séum kannski ekki að horfa til þess að hefna okkar en ég vona að flestir okkar muni tilfinninguna eftir leikinn í fyrra.
Hversu svekktir við vorum og að leikmenn taki það með inn í leikinn. Fyrst og fremst viljum við að KA vinni bikar, ég held að það sé það sem allir eru að hugsa.“
Hvernig áætlið þið að stöðva Víkinga?
„Ég held að við fylgjum bara okkar leikplani. Við erum búnir að æfa það vel og ég held að það sé svona grunnurinn að því að við leyfum þeim ekki að spila á sínum styrkleikum og séum klárir í að refsa þeim þegar tækifæri gefst,“ sagði hann.
Ásgeir kvaðst bjartsýnn á að KA takist að hampa bikarmeistaratitlinum í fyrsta sinn í sögunni á morgun.
„Já, annars væri ég ekki hérna held ég. Ef maður hefur ekki trú á verkefninu þá væri hálf gagnslaust að vera hluti af því. Fyrir mér er þetta ekkert annað en sigur.“