Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, var reiðubúið að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum á Laugardalsvelli hefði Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, samþykkt hann sem heimavöll Víkings úr Reykjavík í Sambandsdeild Evrópu.
Víkingur mun þess í stað leika heimaleiki sína snemma dags á Kópavogsvelli.
„Við hefðum frestað framkvæmdum ef það hefði verið hægt að leika á Laugardalsvelli. UEFA treystir ekki Laugardalsvelli því það er ekki undirhiti á vellinum,“ sagði Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við Fótbolta.net.
Sagði hann þetta vera viðhorf UEFA vegna fenginnar reynslu frá því á síðasta ári þegar Laugardalsvöllur var frosinn í öðrum heimaleik Breiðabliks í Sambandsdeildinni gegn Gent og þriðji heimaleikurinn var færður af Laugardalsvelli á Kópavogsvöll með mjög skömmum fyrirvara eftir að vallarstarfsmenn á Laugardalsvelli höfðu unnið hörðum höndum að því að gera hann leikhæfan.
„Þetta segja þeir í ljósi reynslunnar frá í fyrra. Völlurinn var frosinn í seinni hálfleik gegn Gent og lokaleikurinn var færður með engum fyrirvara í Kópavoginn. Laugardalsvöllur er ekki hæfur eins og staðan er í dag,“ bætti Eysteinn Pétur við.
KSÍ mun í október ráðast í framkvæmdir þar sem skipt verður um undirlag. Lagt verður blandað gras með undirhitakerfi.