„Þetta hjálpar Víkingunum ekki neitt“

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Ég skil ekki af hverju mótið er sett svona upp,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, í Fyrsta sætinu.

Halldór tók við þjálfun Blika í október á síðasta ári eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Óskars Hrafns Þorvaldssonar hjá félaginu frá árinu 2019 en liðið trónir á toppi Bestu deildarinnar með 49 stig líkt og Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík. 

Sérstakt fyrirkomulag

Bestu deild karla var skipt upp í efri og neðri hluta eftir að 22. umferðinni lauk þann  16. september en lokaumferðirnar fimm verða leiknar frá 22. september til 27. október.

„Það hefði verið mjög einfalt að spila 22. umferðina í kringum 13. september sem er sami dagur og frestaður leikur KR og Víkings fór fram,“ sagði Halldór.

„Þá hefðum við getað spilað þessar síðustu fimm umferðir með fjögurra til fimm daga millibili og þannig klárað mótið fyrir næsta landsleikjahlé í október. Ég held að allir hefðu verið ánægðir með þetta fyrirkomulag og öll liðin hefðu fengið jafn mikinn tíma til þess að jafna sig á milli leikja.

Þá hefðu Víkingarnir líka getað farið inn í Sambandsdeildina án þess að þurfa að pæla í einhverjum deildarleikjum sem eru oft þremur til fjórum dögum eftir þessa leiki í Sambandsdeildinni. Ég held að menn hafi ekki alveg hugsað þetta til enda, þegar mótið var lengt. Þetta hjálpar Víkingunum ekki neitt, ekki frekar en öðrum liðum, þannig að þetta er mjög sérstakt fyrirkomulag,“ sagði Halldór meðal annars.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka