Breiðablik og Þór/KA áttust við í þriðju umferð úrslitakeppni Bestu deildar kvenna í dag. Fyrir leikinn var Breiðablik á toppnum með 54 stig og Þór/KA í þriðja sætinu með 33 stig.
Breiðablik vann leikinn 6:1 þar sem öll sex mörkin komu í fyrri hálfleik. Breiðablik heldur toppsætinu með 57 stig en Þór/KA er áfram í þriðja sætinu.
Þessi fyrri hálfleikur fer í sögubækurnar fyrir margar sakir en Samantha Smith skoraði þrennu á fyrstu 15 mínútum leiksins. Fyrsta markið kom á 7. mínútu eftir góða sókn blika, annað markið kemur á 12. mínútu eftir hornspyrnu sem var beint af æfingasvæðinu og svo var þrennan fullkomnuð á 14. mínútu aftur eftir hornspyrnu en nú skoraði hún með skalla og var það Agla María Albertsdóttir sem tók þessar frábæru hornspyrnur.
Breiðablik átti leikinn og skoraði Andrea Rut Bjarnadóttir fjórða markið eftir góða sókn og næstu mínútum hélt sókn blika áfram en Shelby Money markmaður Þór/KA varði nokkrum sinnum vel.
Þá var komið að Samönthu Smith að leggja upp mark fyrir Kristínu Dís Árnadóttur sem mætti á fjærstöngina og stangaði boltann í netið. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði svo sjötta markið rétt fyrir hálfleik og staðan 6:0 í hálfleik og yfirburðir Breiðabliks rosalegir.
Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri þar Breiðablik sótti og fékk nokkur góð færi til að skora úr.
Á 62. mínútu skoraði svo Sandra María Jessen frábært mark með skoti rétt fyrir utan teig og staðan orðin 6:1 og þar við sat.