„Mjög ljúft að ná þessu marki inn“

Ísak Snær Þorvaldsson í skallabaráttu í kvöld.
Ísak Snær Þorvaldsson í skallabaráttu í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta er mjög góð tilfinning, þetta var alvöru vinnslusigur,“ sagði Ísak Snær Þorvaldsson eftir 2:0-sigur Breiðabliks á ÍA í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Þetta var ekki auðvelt. Skaginn er með helvíti gott lið. Við vissum að við þyrftum að vera þolinmóðir og náðum í þennan sigur,“ sagði Ísak Snær í samtali við mbl.is eftir leik.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill þar sem Breiðablik skapaði sér ekki mörg færi. Mun meiri kraftur var í liðinu í síðari hálfleik.

Hverju breyttuð þið í hálfleik?

„Það var í rauninni ekkert svakalega mikið. Það voru bara nokkur taktísk atriði og síðan var það bara að halda áfram að gera það sem við vorum að gera.

Það var ekki mikið að gerast í fyrri hálfleik en við vorum að komast í gegnum þá og það var bara síðasta sendingin sem gekk ekki upp.

Við vissum að við þyrftum að halda áfram að vera þolinmóðir því við vissum að þetta væri að fara að koma,“ útskýrði hann.

Kominn með krampa á 75. mínútu

Ísak Snær var óþreytandi í leiknum í kvöld og þrátt fyrir að spila í fremstu víglínu var hann út um allan völl og vann stöðugt. Hann klykkti út með stórglæsilegu marki á sjöttu mínútu uppbótartíma í kvöld og innsiglaði þannig tveggja marka sigur Blika.

„Það var mjög sæt tilfinning. Ég var kominn með krampa á 75. mínútu eða eitthvað, var farinn að finna fyrir kálfanum þannig að það var mjög ljúft að ná þessu marki inn.

Það var vinnsla og dugnaður í öllu liðinu. Þetta var að mér fannst geggjaður sigur,“ sagði Ísak Snær.

Breiðablik á í harðri baráttu við Víking úr Reykjavík á toppi deildarinnar.

„Við hugsum bara um okkur sjálfa, það er gamla góða klisjan. Við tökum bara einn leik í einu og þetta var mjög góður sigur núna.

Við jöfnum okkur og síðan förum við beint í að einbeita okkur að næsta leik. Hver einasti leikur er úrslitaleikur, það er bara þannig. Þetta var góður sigur og mjög mikilvæg þrjú stig,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert