Stefán stefnir á stórmót

Stefán Teitur Þórðarson.
Stefán Teitur Þórðarson. Eggert Jóhannesson

Stefán Teitur Þórðarson segir í viðtali við enska miðilinn Sportsboom.com að árangur íslenska landsliðsins á EM 2016 og HM 2018 veiti yngri kynslóð landsliðsmanna innblástur til að komast á stórmót.

„Eldri kynslóðin gaf okkur innblásturinn til að gera það sama og þeir. Við höfum rætt þetta innan landsliðsins,“ sagði Stefán Teitur en hann var í liði Íslands sem lagði England í æfingaleik á Wembley í sumar. 

„Það er hægt að bera saman landsliðið í dag við eldri landslið og við viljum líkt og þeir fara á stórmót og ná árangri,“ bætti Skagamaðurinn við. Stefán Teitur gekk til liðs við Preston North End frá Silkeborg í sumar.

Stefán Teitur Þórðarson.
Stefán Teitur Þórðarson. Ljósmynd/Preston

Þarft að vera tilbúinn í baráttu

„Líkamlegar kröfur eru meiri í Englandi en í Danmörku og á Íslandi, leikirnir eru mjög jafnir. Ég kem frá liði sem vildi halda boltanum og við spiluðum mörgum stuttum sendingum. Í Englandi þarftu að vera tilbúinn í baráttu,“ sagði miðjumaðurinn aðspurður um hvort hann hafi þurft að venjast enska boltanum.

„Ég vil ná árangri með Preston og berjast um sæti í umspilinu í lok tímabils,“ sagði Stefán að lokum en Preston mætir Millwall í ensku 1. deildinni um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert