„Ég hef aldrei upplifað svona áður“

Hrannar Snær, fyrir miðju, að fagna með liðsfélögum sínum í …
Hrannar Snær, fyrir miðju, að fagna með liðsfélögum sínum í leikslok. mbl.is/Ólafur Árdal

„Þetta var smá bras í dag,“ sagði Hrannar Snær Magnússon, leikmaður Aftureldingar, eftir 1:0-sigur gegn Keflavík í úrslitaleiknum um sæti í Bestu deild karla í knattspyrnu.

„Við byrjum vel fyrstu tíu mínúturnar en svo komust þeir inn í leikinn en við ákváðum í hálfleik að við ætluðum að keyra betur á þetta. Það var barátta í byrjun seinni en svo komu við inn þessu marki og tókum þetta bara.“

Leikurinn var lokaður og það tók langan tíma fyrir liðið að brjóta Keflvíkinga og markið kom ekki fyrr en á 78. mínútu.

Var stressandi að það tók svona langan tíma að ná boltanum í netið?

„Já og nei, við vissum allir að við gætum skorað nokkur, sérstaklega síðustu 20 mínúturnar. Svo kom þessi sókn, hornspyrnan, skotið og við komum þessu lokins í netið.“

Afturelding komst alla leið í úrslitaleikinn í fyrra en komst ekki upp þá en liðið var ákveðið að ná því í ár.

„Ég kem inn núna fyrir þetta tímabil og planið var alltaf frá byrjun að fara upp. Við ætluðum að keyra á þetta í sumar og það tókst.“

Hrannar Snær með boltann í leiknum í dag.
Hrannar Snær með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Hrannar kom til liðsins fyrir tímabilið en þar á undan spilaði hann með Selfoss. 

Ætlar þú með liðinu upp í Bestu?

„Það kemur í ljós, ég er mjög spenntur fyrir því allavega.“

Það heyrðist vel í stuðningsmönnum Aftureldingar í stúkunni í kvöld og mikil stemning.

„Allir stuðningsmennirnir hérna úr Mosó, ég hef aldrei upplifað svona áður. Ég veit að stuðningsmennirnir í Mosó eru geggjaðir, sérstaklega þegar þeir mæta allir og ég vona að það verið jafn góð stemning í Bestu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert