Talsvert eftirsóknarverðara að spila í efstu deild

Magnús Már Einarsson.
Magnús Már Einarsson. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Þessi leikur leggst virkilega vel í okkur og það er mikil spenna hjá bæði leikmönnum, okkur í þjálfarateyminu og hjá stuðningsmönnunum,“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, í samtali við Morgunblaðið í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í vikunni.

Keflavík og Afturelding mætast í hreinum úrslitaleik um sæti í Bestu deild karla á Laugardalsvelli í dag klukkan 14 en sigurvegarinn í leiknum tryggir sér sæti í Bestu deildinni að ári.

Leikurinn í fyrra hjálpar

„Við fengum að upplifa þetta í fyrra og búum vel að þeirri reynslu. Ég held klárlega að leikurinn sem við spiluðum hérna í fyrra gegn Vestra muni hjálpa okkur. Við erum búnir að upplifa þetta einu sinni áður og við þurfum að reyna nýta okkur það.

Þetta er ógeðslega skemmtilegur leikur að fá að taka þátt í og okkur hefur gengið mjög vel í þessari úrslitakeppni þar sem við höfum unnið alla leikina okkar, og svo tapað í framlengingu. Við erum líka búnir að spila nokkra úrslitaleiki í sumar þar sem við höfum verið með bakið upp við vegg þannig að við mætum tilbúnir til leiks,“ sagði Magnús Már.

Gríðarlega mikilvægt fyrir félagið

Afturelding hefur alið upp marga frábæra knattspyrnumenn á undanförnum árum, sem eru annaðhvort í atvinnumennsku eða hjá öðrum liðum í Bestu deildinni, en liðið hefur aldrei leikið í efstu deild.

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir félagið í heild sinni að vera í efstu deild. Við viljum að okkar leikmenn, sem eru uppaldir hérna, séu að spila fyrir Aftureldingu, ekki einhversstaðar annarsstaðar. Við höfum aukið alla fagmennsku í kringum klúbbinn á síðustu árum og við höfum tekið nokkur skref fram á við.

Barna- og unglingastarfið er frábært hjá Aftureldingu og það væri auðvitað frábært að geta haldið þessum bestu leikmönnum hjá okkur, því lengur því betra. Með því að fara í efstu deild segir það sig sjálft að það er talsvert eftirsóknarverðara að spila með Aftureldingu í efstu deild, frekar en 1. deildinni,“ bætti Magnús Már við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert