Fyrsti KR-ingurinn í fimmtán ár

Benóný Breki Andrésson, til vinstri, skoraði fjögur mörk fyrir KR …
Benóný Breki Andrésson, til vinstri, skoraði fjögur mörk fyrir KR gegn Fram í dag. Ólafur Árdal

Benoný Breki Andrésson var fyrsti leikmaður KR í fimmtán ár til að skora fleiri en þrjú mörk í leik í efstu deild karla í fótbolta þegar hann skoraði fjögur mörk í stórsigri KR á Fram í dag, 7:1.

Síðastur til að leika þann leik var Björgólfur Takefusa, sem skoraði öll fimm mörk KR-inga þegar þeir unnu Valsmenn 5:2 á Hlíðarenda í lokaumferð deildarinnar árið 2009.

Einn KR-ingur til viðbótar hefur afrekað þetta á 21. öldinni en það var Andri Sigþórsson sem skoraði öll fjögur mörk KR í sigri á Stjörnunni, 4:1, í lokaumferð deildarinnar í september árið 2000. Þá tryggðu KR-ingar sér Íslandsmeistaratitilinn og Andri skoraði fernuna á aðeins 19 mínútna kafla, sitt hvoru megin við hálfleikinn.

Benoný er annar leikmaður deildarinnar til að skora fjögur mörk í leik á þessu ári en Viktor Jónsson gerði fernu í sigri ÍA á HK, 8:0, í sumar.

Björn Daníel Sverrisson skoraði fjögur mörk fyrir FH í sigri á Skagamönnum á Akranesi, 6:2, árið 2013.

Þá skoraði danski framherjinn Allan Borgvardt fjögur mörk fyrir FH-inga þegar þeir unnu Grindavík 8:0 í deildinni árið 2005.

Þar með eru fernur 21. aldarinnar upptaldar en síðastur til þess á 20. öldinni var Steingrímur Jóhannesson sem skoraði fjögur mörk fyrir ÍBV í 5:0 sigri á Leiftri árið 1999.

Þrjú fyrstu mörkin skoraði Benoný á 24 mínútna kafla, á fyrstu 31 mínútu leiksins og þetta er í annað sinn á þessu tímabili sem hann skorar þrennu í fyrri hálfleik. Sama gerði hann gegn ÍA þann 1. september, í 4:2 sigri KR-inga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert