Breiðablik er komið í efsta sæti Bestu deildar karla í fótbolta á ný eftir sigur á FH, 1:0, í 24. umferð deildarinnar í Kaplakrika í dag.
Breiðablik er þá komið með 55 stig í efsta sæti deildarinnar. Víkingar eiga eftir að spila gegn Val kl 19:15 í kvöld og geta þá endurheimt efsta sætið en Víkingar eru með 52 stig. FH-ingar eru áfram í sjötta sætinu með 33 stig.
Það var talsverður hiti í leikmönnum framan af fyrri hálfleik og alveg ljóst að mikið var í húfi fyrir bæði lið. Mikið jafnræði var á með liðunum og skiptust þau á að sækja, Breiðablik þó aðeins meira. Daði Freyr Arnarsson varði mark FH í dag og varði hann ágætlega í fyrri hálfleik.
Besta færi fyrri hálfeiks kom á 43. mínútu þegar Ísak Snær Þorvaldsson slapp í gegnum vörn FH, skaut að marki en Daði Freyr varði boltann í horn.
Önnur færi í hálfleiknum flokkast sem hálffæri en þó skal tekið fram að bæði liðin börðust vel í fyrri hálfleik.
Staðan í hálfleik 0:0.
Blikar mættu dýrvitlausir inn í seinni hálfleikinn og byrjuðu strax að ógna FH.
Á 47 mínútu fengu Blikar hornspyrnu. Boltinn hrökk fyrir Höskuld Gunnlaugsson alveg við mark FH sem skaut að marki en Daði bjargaði í horn.
Fimm mínútum seinna fengu leikmenn Breiðabliks aðra hornspyrnu og hana tók Kristinn Jónsson. Kristinn skoraði beint úr hornspyrnunni og staðan 1:0 fyrir Breiðablik.
Eftir þetta fór leikurinn í svipað mót og í fyrri hálfleik þar sem liðin sóttu til skiptis, Breiðablik þó meira og þau skiptust á hálffærum.
Á 78 mínútu leiksins varamaðurinn Davíð Ingvarsson sannkallað dauðafæri fyrir Blika en Daði Freyr Arnarsson varði vel í horn. Eins og fyrr segir sóttu Blikar meira í seinni hálfleik og voru líklegri til að bæta við marki en að fá á sig jöfnunarmark.
FH fékk ágætt færi á 89 mínútu þegar Ísak Óli Ólafsson komst upp að marki Blika en skot hans fór í hliðarnetið.
Lokatölur á Kaplakrikavelli 1:0 fyrir Breiðablik.