Rúnar um KR: Aðstaðan hérna til skammar

Rúnar Kristinsson þjálfar nú Fram.
Rúnar Kristinsson þjálfar nú Fram. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Rúnar Kristinsson stýrði útiliði á KR-vellinum í fyrsta skipti er hann og lærisveinar hans hjá Fram fengu stóran skell í Vesturbænum í neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta í dag, 7:1.

Rúnar er uppalinn hjá KR, fór í gegnum yngri flokka félagsins og lék með meistaraflokki frá 1986 til 1994, áður en hann hélt í atvinnumennsku erlendis. Hann kom svo aftur heim í KR, lék með liðinu árið 2007 og tók síðan við sem þjálfari 2010.

Hann stýrði KR til 2014 og tók svo aftur við því árið 2017 og stýrði því í sex ár. Rúnar er því mikill KR-ingur. Hann var ómyrkur í máli er hann ræddi aðstöðuna hjá KR-ingum í Frostaskjólinu.

Rúnar Kristinsson upplifði góða tíma með KR.
Rúnar Kristinsson upplifði góða tíma með KR. Árni Sæberg

„Það var ömurlegt að sjá aðstöðuna hérna. Núna sé ég hana með öðrum augum. Það er skandall að KR hafi ekki fengið meiri stuðning frá Reykjavíkurborg og fleirum til að búa til alvöru aðstöðu. Þetta er sögufrægt og stórt félag sem á miklu meira skilið. Þetta er allt að drabbast niður,“ sagði hann við mbl.is.

Rúnar er vægast sagt ósáttur við Reykjavíkurborg þegar kemur að málefnum uppeldisfélagsins.

„Fólkið hérna er að gera sitt besta við að halda þessu í lagi, en aðstaðan hérna er algjörlega til skammar. Hún er borginni og borgarstjórunum sem hafa verið í Reykjavíkurborg undanfarin 10-15 ár til skammar. Því miður sé ég þetta með allt öðrum augum þegar ég kem hingað núna en þegar ég var hérna alla daga í sex ár,“ sagði Rúnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert