Það stöðvaðist allt í augnablik

Víkingar fagna í kvöld.
Víkingar fagna í kvöld. Ólafur Árdal

„Það stöðvaðist allt í augnablik og allt í einu hoppuðu allir á mig til að fagna. Þetta er mikill léttir,“ sagði Daninn Tarik Ibrahimagic í samtali við mbl.is eftir að hann tryggði Víkingi 3:2-sigur á Val með marki í uppbótartíma í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

Sá danski jafnaði í 2:2 og skoraði svo sigurmarkið. Bæði mörkin voru býsna falleg.

„Arnar sagði mér að sækja meira úr vörninni. Ég vildi skjóta með hægri en fann ekki opnun, svo ég skipti yfir til vinstri og sá hornið opið í fyrra markinu. Svo skaut ég bara í því seinna.

Víkingur hefur unnið Val með sömu markatölu, 3:2, í tveimur síðustu leikjum liðanna.

„Við vorum manni færri stóran hluta leiks þegar við unnum Val síðast. Varamennirnir komu með meiri kraft í leikinn hjá okkur í kvöld. Við vitum að við fáum færin og við þurftum bara eina sókn í lokin og þetta gekk.“

Hann gekk í raðir Víkings frá Vestra á miðju tímabili og hefur komið afar vel inn í Fossvogsliðið. „Ég hafði það á tilfinningunni að ég myndi njóta þess að spila með þessu liði og þess vegna skipti ég yfir.“

Það er nóg fram undan hjá Ibrahimagic og félögum, en liðið leikur við Omonia á Kýpur í Sambandsdeildinni á fimmtudag.

„Það er Evrópuleikur fram undan og svo leikur við Stjörnuna. Við verðum að vinna, því Breiðablik gefur ekkert eftir og ekki við heldur,“ sagði hann.

Tarik Ibrahimagic hefur komið vel inn í Víkingsliðið.
Tarik Ibrahimagic hefur komið vel inn í Víkingsliðið. mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert