Þetta var ósanngjarnt

Srdjan Tufegdzic, Túfa, var skiljanlega svekktur í kvöld.
Srdjan Tufegdzic, Túfa, var skiljanlega svekktur í kvöld. Eyþór Árnason

Srdjan Tufegdzic, Túfa, var skiljanlega svekktur þegar hann ræddi við mbl.is eftir að hann og lærisveinar hans í Val töpuðu fyrir Víkingi, 3:2, í rosalegum leik í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Tarik Ibrahimagic skoraði sigurmark Víkings í uppbótartíma.

„Það var mjög erfitt og ég er ekki búinn að ná mér niður. Þetta var ósanngjarnt að þessi bolti fór í markið okkar eftir hetjulega frammistöðu. Við fórum í gegnum mikið mótlæti fyrir leik og svo í leiknum sjálfum.

Við sýndum mikinn karakter að koma til baka eftir að við lendum undir gegn liði sem klárar yfirleitt sína leiki þegar þeir komast yfir. Við fengum svo færi til að komast í 3:1 og 3:2 líka. Þá værum við að fagna eins og þeir eru að gera núna. Það blæs fast á móti okkur en ég er stoltur af mínu liði,“ sagði Túfa og hélt áfram:

Valsarinn Albin Skoglund með boltann í kvöld.
Valsarinn Albin Skoglund með boltann í kvöld. Ólafur Árdal

„Ég þarf að sjá betur hvað við hefðum getað gert betur til að koma í veg fyrir þessi mörk. Við áttum þetta tap ekki skilið. Við skildum allt eftir á vellinum í dag og vorum flottir á löngum köflum.“

Valur lék án Gylfa Þórs Sigurðssonar, Hólmars Arnar Eyjólfssonar, Sigurðar Egils Lárussonar og Ögmundar Kristinssonar í kvöld.

„Það er búið að vera þannig síðan ég kom. Menn hafa verið að glíma við meiðsli síðan í júní. Þeir gera allt hvað þeir geta til að hjálpa liðinu en það er erfitt þegar þeir eru ekki til taks. Við höfum samt sýnt að við gefumst aldrei upp. Þetta var skref fram á við í kvöld, þrátt fyrir úrslitin.

Gylfi Þór Sigurðsson lék ekki með Val í kvöld vegna …
Gylfi Þór Sigurðsson lék ekki með Val í kvöld vegna meiðsla. Arnþór Birkisson

Gylfi hefur verið stórkostlegur síðan ég kom en hann vaknaði með sting í bakinu. Hólmar er búinn að vera meiddur síðan ég kom og hann reynir hvað hann getur til að hjálpa okkur inn á milli. Vonandi verða Ögmundur og Sigurður Egill klárir í næsta leik. Þetta snýst ekki um einn og einn leikmann hjá Val, við erum lið og þannig ætlum við að ná í þetta Evrópusæti,“ sagði hann.

Valur hefur unnið þrjá leiki af níu síðan Túfa tók við í byrjun ágúst. Hann viðurkenndi að hann væri til í að vera með fleiri sigra.

„Það er ekki vafamál. Við höfum við með þetta í okkar höndum í tveimur leikjum á móti Víkingi og á móti FH líka. Einhvern veginn missum við þetta úr okkar höndum. Ég hef aldrei upplifað annað eins. Við verðum að taka þetta á kassann og halda áfram,“ sagði Túfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert