Viljum við ekki hreinan úrslitaleik í lokaumferðinni?

Höskuldur Gunnlaugsson með Baldur Kára Helgason FH-ing á hælunum í …
Höskuldur Gunnlaugsson með Baldur Kára Helgason FH-ing á hælunum í leiknum í Kaplakrika í dag. Ólafur Árdal

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks var hæstánægður með 1:0 sigur gegn FH á Kaplakrikavelli í Bestu deild karla í fótbolta dag þó hann hefði viljað sjá fleiri mörk frá sínu liði.

Spurður út í hvað hafi skapað sigur Blika í dag sagði Höskuldur:

„Mér fannst vera dugnaður, hugrekki og vilji í þessu liði til að kasta sér fyrir bolta, vinna einvígi og spila vel saman. Þetta var alveg svart og hvítt miðað við leikinn hér fyrr í sumar þar sem við töpuðum fyrir FH. En þetta var karaktersigur."

Þið skorið eitt mark sem kemur beint úr hornspyrnu og því má segja að smá heppnisstimpill hafi verið yfir þessu marki. Hefðu Blikar átt að skora úr öðrum færum?

„Já mér fannst það og ég sjálfur fékk fullt af stöðum til að bæði leggja upp og skora en það er líka mikilvægt að við héldum markinu hreinu annan leikinn í röð. Það er svolítið einkennandi fyrir okkur núna, þessi vilji til að vinna saman."

Þessi sigur þýðir að Blikar eru búnir að ná í þessi þrjú stig sem voru í boði fyrir þessa umferð á meðan Víkingar eiga eftir að spila gegn Valsmönnum síðar í kvöld. Það hlýtur að vera góð pressa sem þið setjið á Víkinga fyrir kvöldið ekki satt?

„Jújú en viljum við ekki fá hreinan úrslitaleik í lokaumferðinni sem þýðir að við viljum að bæði lið vinni alla sína leiki fram að því? Ég er farinn að sjá þetta þannig eiginlega."

Er það þinn vilji?

„Já eiginlega. Það er sjaldan sem maður fær svoleiðis stöður að fá að spila einn stærsta leik í sögu Íslandsmótsins, held ég að ég geti fullyrt. Ég vona að Óli Kristjáns fari ekki að vitna í fyrri tíð og sé mér ósammála. En ég held að í ljósi sögunnar þá hljóti allir að vilja fá þannig leik."

Næsti leikur hjá ykkur er gegn Val á Kópavogsvelli. Hvað þarf til að ná fram sigri gegn skeinuhættum Valsmönnum?

„Við þurfum að fókusa áfram á okkar leik og það sem við erum að gera vel. Við höfum verið mjög góðir í að horfa stutt fram í tímann og hugsa bara um næsta leik, næstu æfingu osfrv."

Hvað stóð samt upp úr í ykkar leik í dag?

„Við mættum þeim í öllum lausum boltum og unnum þar. Þá fengu okkar fótboltalegu gæði að skína betur," sagði Höskuldur í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert