Stjarnan lagði ÍA, 3:0, í annarri umferð efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld.
Úrslitin þýða að Stjarnan er í fjórða sæti með 38 stig, stigi á eftir Val í Evrópusæti. ÍA er í fimmta sæti með 34 stig.
Viðureignin byrjaði mjög rólega, Stjarnan var meira með boltann en skapaði sér lítið af færum. Skagamenn voru afar þéttir fyrir og nýttu sér skyndisóknir.
Fyrsta mark leiksins kom á 18. mínútu en það var Emil Atlason sem gerði það. Það kom eftir hornspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar á nærstöngina þar sem Emil mætti á ferðinni og stangaði boltann í netið.
Skömmu síðar voru Skagamenn nálægt því að jafna metin. Hornspyrna Inga Þórs Sigurðssonar fann Marko Vardic sem átti skalla en Örvar Logi Örvarsson bjargaði á línu.
Staðan var 1:0, Stjörnunni í vil í hálfleik.
Stjarnan tvöfaldaði forystu sína á 53. mínútu með sjálfsmarki frá Johannes Vall, varnarmanni ÍA. Adolf Daði Birgisson lagði boltann á Hilmar Árna sem átti skot í stöngina og þaðan í hina stöngina. Boltinn fór síðan í Vall og af honum í markið.
Í kjölfarið var Stjarnan áfram meira með boltann og líklegri til að bæta við öðru marki heldur en ÍA að minnka muninn.
Varamaðurinn Jón Hrafn Barkarson fékk frábært færi til að gera endanlega út um leikinn fyrir Stjörnuna. Hilmar Árni átti fallega hælsendingu á Jón Hrafn sem var einn á móti Árna Marinó en skot hans fór fram hjá.
Jón Hrafn innsiglaði síðan sigur Stjörnunnar á fjórðu mínútu uppbótartíma. Hilmar Árni lagði boltann út á Jón sem skoraði af miklu öryggi.
Lokaniðurstöður í kvöld, 3:0-sigur Stjörnumanna.