Víkingur og Breiðablik eru samstíga í einvígi sínu um Íslandsmeistaratitil karla í fótbolta og fyrirliðar liðanna voru samstíga á sunnudaginn þegar þeir náðu báðir nákvæmlega sama áfanganum á sínum ferli í 24. umferð Bestu deildarinnar.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, og Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings, spiluðu báðir sinn 250. deildaleik á ferlinum. Höskuldur með Blikum í sigrinum á FH, 1:0, og Nikolaj með Víkingum í sigrinum dramatíska gegn Val á Hlíðarenda, 3:2.
Höskuldur er kominn með 202 leiki með Breiðabliki í efstu deild, hann spilaði 12 leiki með Augnabliki í 3. deild árin 2012-2013, og þá lék Höskuldur 36 leiki með Halmstad í tveimur efstu deildum Svíþjóðar á árunum 2017-2018.
Nikolaj lék 94 leiki með dönsku liðunum Vestsjælland og Köge í tveimur efstu deildum Danmerkur, áður en hann kom til Íslands árið 2016. Frá þeim tíma hefur hann leikið 156 leiki í efstu deild hér á landi, 13 með Val og síðan 143 leiki fyrir Víking.
Patrick Pedersen skoraði fyrra mark Vals í ósigrinum gegn Víkingi og er þar með orðinn þriðji markahæstur í sögu efstu deildar karla. Þetta var 114. mark Danans fyrir Val og hann fór fram úr Atla Viðari Björnssyni sem skoraði 113 mörk fyrir FH. Um leið er Patrick orðinn sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk fyrir eitt félag í deildinni. Nú eru það bara Tryggvi Guðmundsson (131) og Ingi Björn Albertsson (126) sem eru fyrir ofan Patrick á markalista efstu deildar.
Jeppe Pedersen, litli bróðir Patricks, skoraði mark á sama degi því hann jafnaði fyrir Vestra í fallslagnum gegn HK á Ísafirði á sunnudaginn.
Andri Rúnar Bjarnason skoraði sitt 40. mark í efstu deild þegar hann tryggði Vestra dýrmætan sigur í leiknum við HK, 2:1.
Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, skoraði líka sitt 40. mark í deildinni þegar hann kom bikarmeisturunum yfir eftir 30 sekúndna leik í sigrinum á Fylki, 3:1. Ásgeir er þriðji leikmaðurinn sem nær að skora 40 mörk fyrir KA í deildinni.
Benoný Breki Andrésson er kominn í slaginn um gullskóinn eftir að hafa skorað fjögur mörk fyrir KR í 7:1 sigrinum á Fram. Hann og Patrick Pedersen eru nú aðeins einu marki á eftir Skagamanninum Viktori Jónssyni.
Úrslitin í 24. umferð:
FH - Breiðablik 0:1
KR - Fram 7:1
Vestri - HK 2:1
Fylkir - KA 1:3
Valur - Víkingur 2:3
Stjarnan - ÍA 3:0
Markahæstir í deildinni:
16 Viktor Jónsson, ÍA
15 Benoný Breki Andrésson, KR
15 Patrick Pedersen, Val
12 Emil Atlason, Stjörnunni
11 Helgi Guðjónsson, Víkingi R.
11 Jónatan Ingi Jónsson, Val
10 Gylfi Þór Sigurðsson, Val
9 Valdimar Þór Ingimundarson, Víkingi R.
8 Ari Sigurpálsson, Víkingi R.
8 Björn Daníel Sverrisson, FH
8 Danijel Dejan Djuric, Víkingi R.
8 Höskuldur Gunnlaugsson, Breiðabliki
8 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
7 Arnþór Ari Atlason, HK
7 Ásgeir Sigurgeirsson, KA
7 Hallgrímur Mar Steingrímsson, KA
7 Ísak Snær Þorvaldsson, Breiðabliki
7 Sigurður Bjartur Hallsson, FH
6 Atli Þór Jónasson, HK
6 Atli Sigurjónsson, KR
6 Guðmundur Magnússon, Fram
6 Kjartan Kári Halldórsson, FH
6 Nikolaj Hansen, Víkingi R.
6 Viðar Örn Kjartansson, KA
6 Viktor Karl Einarsson, Breiðabliki
Næstu leikir:
5.10. Fram - Vestri
6.10. ÍA - FH
6.10. KA - KR
6.10. HK - Fylkir
6.10. Víkingur R. - Stjarnan
6.10. Breiðablik - Valur