Mikið í gangi síðasta vetur

Aron Elí Sævarsson, lengst til hægri, í leiknum gegn Keflavík.
Aron Elí Sævarsson, lengst til hægri, í leiknum gegn Keflavík. Ólafur Árdal

Aron Elí Sævarsson, fyrirliði Aftureldingar, hefur leikið mjög vel með liðinu undanfarin ár, sem hefur vakið athygli annarra félaga. Hann ákvað hins vegar að vera áfram í Aftureldingu, en á meðal félaga sem hafa sýnt Aroni áhuga er uppeldisfélagið Valur.

Afturelding tapaði fyrir Vestra, 1:0, í úrslitaleik umspilsins um sæti í Bestu deildinni í fyrra. Afturelding kvittaði fyrir það með sigri á Keflavík með sömu markatölu á laugardaginn og sætið í efstu deild var tryggt.

„Á undirbúningstímabilinu var ég í öðrum hugleiðingum vegna áhuga annars staðar frá. Það var því blanda af svekkelsi og öðrum hlutum að trufla. Við vorum lengi í gang, en svo vorum við besta liðið og okkur finnst við hafa verið besta liðið í þessari deild í tvö ár,“ sagði Aron. Hann fann fyrir áhuga félaga innan Íslands, sem og erlendis.

„Þetta voru félög í efstu deild hér heima og svo fór ég líka í viku til Danmerkur til félags í næstefstu deild þar. Það gekk vel hjá mér persónulega í fyrra og hjá liðinu líka og því var mikið í gangi síðasta vetur,“ sagði hann.

Aron fékk ekki tækifæri hjá Val og var því lánaður til HK, Hauka og Þórs, áður en hann samdi við Aftureldingu. Hann hefur því beðið lengi eftir tækifærinu í deild þeirra bestu.

Nánar er rætt við Aron í grein í Morgunblaðinu sem kemur út í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka