Aron gæti komið inn í hópinn

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu um langt árabil, gæti komið inn í landsliðshópinn sem Åge Hareide tilkynnti í dag.

Á fjarfundi á Teams í dag greindi Hareide frá því að Aron Einar, sem samdi nýverið við Al-Gharafa í Katar, hafi átt möguleika á því að vera valinn en að hann hafi stífnað aftan á læri í leik með liðinu í Meistaradeild Asíu í vikunni.

„Við vitum ekki hvort hann sé meiddur. Hann varð þreyttur aftan í læri og fór af velli í leiknum. Hann fer í myndatöku og þá kemur það í ljós. Hann þarf að spila leiki til þess að koma sér aftur í sitt besta líkamlega form,“ sagði norski þjálfarinn.

Ekki sé útilokað að Aron Einar verði valinn í hópinn síðar meir ef myndatakan kemur vel út.

„Ég ræddi við Aron í þessari viku. Við sögðum honum að fara í myndatöku og ef eitthvað er að kemur hann ekki. Við getum tekið inn 24 leikmenn en getum ekki tekið inn leikmenn sem eiga í einhverjum meiðslavandræðum í aðdraganda leikjanna,“ bætti Hareide við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert