Víkingur mátti þola 4:0-tap í fyrsta Sambandsdeildarleik liðsins gegn Omonia á Kýpur í dag.
Leikurinn fór rólega af stað. Liðin skiptust á að vera með boltann án þess að skapa sér færi. Um miðbik hálfleiksins áttu Víkingar góðan kafla þar sem þeir hefðu getað komist yfir.
Víkingur fékk fyrsta færi leiksins á 23. mínútu. Fyrirgjöf Karl Friðleifs Gunnarssonar fann Danijel Dejan Djuric í teignum sem átti góðan skalla en Fabiano, markvörður Omonia, varði meistaralega.
Skömmu síðar kom Tarik Ibrahimagic með gullfallega stungusendingu inn fyrir á Valdimar Ingimundarson en skot hans var laust og beint á Fabiano.
Í kjölfarið tók Omonia stjórn á leiknum. Hættuleg sending inn fyrir vörn Víkings rataði á Mariusz Stepinski sem komst í gott færi en Karl Friðleifur komst fyrir skot hans. Stuttu síðar barst boltinn til Loizos Loizou sem átti skot rétt framhjá markinu.
Markalaust í hálfleik.
Eftir góðan fyrri hálfleik sáu Víkingar aldrei til sólar í þeim síðari.
Strax á 51. mínútu tók Omonia forystuna. Það kom eftir hornspyrnu frá Charalampos Charalampous sem fann kollinn á Senou Coulibaly sem skallaði boltann í netið, 1:0.
Andronikos Kakoulli tvöfaldaði forystu Omonia á 81. mínútu. Charalampous átti laust skot sem Ingvar Jónsson varði fyrir fætur Kakoulli sem skoraði í autt markið.
Varamaðurinn Alioum Saidou skoraði þriðja mark Omonia á 86. mínútu. Saidou vann boltann af Davíð Erni Atlasyni, keyrði að marki Víkings og skoraði.
Kakoulli innsiglaði sigur Omonia með sínu öðru marki á 90. mínútu. Valdimar átti slaka sendingu til baka sem Kakoulli komst í, lék á Ingvar og skoraði í opið markið.
Mörkin urðu ekki fleiri og lokaniðurstöður 4:0-sigur heimamanna.
Víkingur fær Stjörnuna í heimsókn á sunnudaginn í næsta leik. Næsti leikur liðsins í Sambandsdeildinni er gegn Cercle Brugge þann 24. október en leikurinn fer fram á Kópavogsvelli.